Erlent

Stjórn­völd á Ind­landi mót­mæla harð­lega hjón­bandi sam­kynja einstaklinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Aðgerðasinnar og baráttufólk bindur vonir við hæstarétt landsins.
Aðgerðasinnar og baráttufólk bindur vonir við hæstarétt landsins. epa/Harish Tyagi

Stjórnvöld á Indlandi hafa sett sig harðlega upp á móti umleitan hinsegin fólks til að fá að gangast í hjónaband. Málið hefur ratað til hæstaréttar landsins, sem hefur áður úrskurðað gegn vilja stjórnvalda og felldi til að mynda úr gildi bann gegn samkynhneigð árið 2018.

Umrætt mál var höfðað af aðgerðasinnum sem krefjast jafnréttis á við gagnkynhneigt fólk. Þeir vilja að samkynja pör og trans fólk fái að ganga í hjónband, ættleiða og njóta annarra réttinda á við gagnkynhneigða.

Hinsegin fólk hefur á síðustu árum orðið sýnilegra í inversku samfélagi, sem er það næst fjölmennasta í heimi. Það er hins vegar enn langt í land, bæði þegar kemur að löggjöf en ekki síður að viðhorfum.

Þannig skilaði ríkisstjórn Narendra Modi inn áliti til hæstaréttar vegna málsins, þar sem lýst er yfir andstöðu og þess farið á leit að málinu verði vísað frá.

„Gilt hjónaband getur aðeins verið á milli líffræðilegs karlmanns og líffræðilegrar konu,“ segir meðal annars í umsögn ríkisstjórnarinnar, sem segir jafnrétti til handa hinsegin fólki ganga gegn trúarlegum gildum og grafa alvarlega undan hagsmunum allra borgara landsins.

Um sé að ræða ákvörðun sem ætti að vera á forræði þingsins en ekki dómstóla.

Ríkisstjórnin, sem hefur lýst hjónabandi samkynja para sem „forréttinda-fyrirbæri“, setti sig einnig nýverið upp á móti því að samkynhneigður lögmaður fengi sæti í hæstarétti.

Þá hefur opinber stofnun sem fjallar um velferð barna sagt að það að heimila ættleiðingar samkynja para jafngilti því að stofna öryggi barna í hættu.

Baráttufólk fyrir réttindum samkynhneigðra bindur, þrátt fyrir þetta, nokkrar vonir við dómsmálið vegna fyrri úrskurða hæstaréttar en auk þess að fella lög um bann gegn samkynhneigð úr gildi komst dómurinn að þeirri niðurstöðu árið 2014 viðurkenna bæri trans fólk sem „þriðja kynið.“

Umfjöllun Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×