Erlent

Leið­togar Vestur­landa búa sig undir við­brögð Rússa við gagn­sókn Úkraínu­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Utanríkisráðherrar G7-ríkjanna funduðu í gær.
Utanríkisráðherrar G7-ríkjanna funduðu í gær. AP/Yuichi Yamazaki

Leiðtogar á Vesturlöndum eru sagðir búa sig undir að Vladimir Pútín Rússlandsforseti grípi til allra þeirra vopna sem hann á eftir til að bregðast við gagnsókn Úkraínumanna sem er sögð vera yfirvofandi.

Guardian hefur eftir breskum embættismönnum sem nú eru viðstaddir fund utanríkisráðherra G7-ríkjanna í Japan að menn séu að búa sig undir að Rússar muni grípa til varna og jafnvel dramatískra aðgerða til að halda þeim stöðum sem þeir hafa náð á vígvellinum.

Nefna þeir til að mynda netárásir og hótanir um notkun kjarnorkuvopna.

Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands, hefur farið einna harðast fram í hótunum gegn Vesturlöndum og sagði í mars að Rússar væru reiðubúnir til að svara mögulegri gagnsókn Úkraínumanna.

Rússar myndu grípa til hvaða vopna sem er ef Úkraínumenn reyndu að taka aftur Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014. Þykir ljóst að Medvedev sé þarna að vísa til taktískra kjarnorkuvopna.

Utanríkisráðherrarnir á G7-fundinum sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þeir fordæmdu ítrekaðar hótanir Rússa um notkun kjarnorkuvopna og gangrýndu fyrirætlan Pútín um að koma fyrir kjarnorkuvopnum í Belarús.

Á fundinum í gær voru meðal annars ræddar mögulegar leiðir til að binda enda á átökin, sem Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að muni aðeins gerast við samningaborðið. Guardian hefur hins vegar eftir embættismönnum innan breska utanríkisráðuneytisins að eina leiðin til að leiða málið endanlega til lykta sé að Pútín hörfi frá Krímskaga og að Vesturlönd vopni Úkraínumenn til „klára málið“.

Ráðherrarnir voru sammála um að viðhalda og auka viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×