Erlent

Stal breiðnef og hélt honum föngnum um borð í lest

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Myndir af parinu úr eftirlitsmyndavélum. Svartklæddi maðurinn heldur á breiðnefnum.
Myndir af parinu úr eftirlitsmyndavélum. Svartklæddi maðurinn heldur á breiðnefnum. Queensland Police

Ástralskur maður sem stal villtum breiðnef og fór með hann um borð í lest hefur verið ákærður fyrir athæfið. Maðurinn gæti átt yfir höfði sér allt að fjörutíu milljón króna sekt fyrir athæfið.

Þriðjudaginn var náðu eftirlitsmyndavélar myndum af manninum og konu sem var með honum þar sem þau fóru um borð í lest við Morayfield, rétt norðan við Brisbane. Maðurinn var þá búinn að vefja breiðnefinum í handklæði og hélt á honum. 

Samkvæmt upplýsingum lögreglu á maðurinn síðan að hafa gengið á milli farþega lestarinnar og leyft þeim að klappa breiðnefinum. Eftir að fólkið fór úr lestinni gengu þau um nálæga verslanamiðstöð og sýndu gestum og gangandi breiðnefinn.

Þegar maðurinn komst loks í leitirnar tjáði hann lögreglu að hann hefði sleppt breiðnefinum út í Caboolture-á. Lögreglan í Queensland hefur ekki getað staðfest það þar sem breiðnefurinn hefur ekki enn fundist.

Maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir að fjarlægja villt dýr úr náttúrulegu umhverfi sínu og fyrir að halda því föngnu. Hann fer fyrir dóm 8. apríl næstkomandi og gæti átt yfir höfði sér sekt upp á 430.000 ástralska dali, um það bil 40 milljónum íslenskra króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×