Fótbolti

Leikmanna- og þjálfaraferli Arnars með landsliðinu lauk á sama stað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í sínum síðasta leik sem landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson á hliðarlínunni í sínum síðasta leik sem landsliðsþjálfari. getty/Alex Nicodim

Arnar Þór Viðarsson stýrði íslenska karlalandsliðinu í síðasta sinn þegar það vann Liechtenstein, 0-7, á sunnudaginn. Leikurinn fór fram á sama stað og síðasti landsleikur hans sem leikmanns.

KSÍ tilkynnti í gær að Arnari hefði verið sagt upp störfum sem landsliðsþjálfara. Hann tók við landsliðinu í lok árs 2020 og stýrði því í 31 leik. Aðeins sex þeirra unnust.

Síðasti leikur Arnars sem landsliðsþjálfara var stórsigurinn á Liechtenstein, 0-7, í undankeppni EM 2024 um helgina. Leikurinn fór fram á Rheinpark vellinum í Vaduz, höfuðborg Liechtenstein.

Svo vill til að síðasti landsleikur Arnars sem leikmanns íslenska landsliðsins var einnig á Rheinpark vellinum 17. október 2007. Ísland tapaði leiknum með þremur mörkum gegn engu en þetta er almennt talin ein svartasta stund í sögu landsliðsins, kannski ásamt 14-2 tapinu fyrir Danmörku á Parken 1967.

Arnar á því eflaust ekkert alltof góðar minningar frá Rheinpark vellinum þar sem bæði leikmanna- og þjálfaraferli hans með landsliðinu lauk.

Þess má þó geta að þrír af sex sigrum Arnars sem landsliðsþjálfara komu gegn Liechtenstein. Tveir í undankeppni HM 2022 og svo stórsigurinn á sunnudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.