Íslenski boltinn

Albert um Stjörnuna: „Of mörg spurningamerki“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjarnan endaði í 5. sæti Bestu deildar karla á síðasta tímabili.
Stjarnan endaði í 5. sæti Bestu deildar karla á síðasta tímabili. vísir/hulda margrét

Albert Ingason segir erfitt að meta stöðu Stjörnunnar í dag. Liðinu er spáð 6. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Það er svolítið erfitt að lesa í Stjörnuliðið í ár. Þú ert með menn sem eru búnir að vera í meiðslum. Þeir fengu Andra [Adolphsson] frá Val sem sleit krossband. Hilmar Árni [Halldórsson] er að koma aftur eftir meiðsli og Emil [Atlason] er búinn að vera meiddur alveg frá því á síðasta tímabili. Það eru mörg spurningamerki,“ sagði Albert.

„Guðmundur Kristjánsson mun styrkja þá því miðjan lak svolítið í fyrra. Það var auðvelt að hlaupa í gegnum þá. Maður getur séð þá í neðri hlutanum og líka í efri hlutanum. Þetta er stórt spurningamerki.“

Albert telur Stjörnuna ekki vera líklega til að ná Evrópusæti í sumar.

„Ekki að mínu mati. Mér finnst hópurinn ekki alveg nógu sterkur. Guðmundur styrkir miðsvæðið en mér finnst vanta meira í öftustu stöður þar. Haraldur Björnsson er meiddur. Þú færð Árna [Snæ Ólafsson] í staðinn og hann hefur ekki átt sín bestu tímabil undanfarin ár,“ sagði Albert.

„Joey Gibbs átti ekki sitt besta tímabil í fyrra og svo fengu þeir Andra sem þeir vita ekki hvað þeir fá út úr honum. Hann er að koma úr erfiðum meiðslum. Það eru of mörg spurningamerki en það er klárlega spennandi leikmenn þarna. Ísak [Andri Sigurgeirsson] sérstaklega. Það verður mjög spennandi að fylgjast með honum í sumar.“

Fyrsti leikur Stjörnunnar í Bestu deildinni er gegn Víkingi mánudaginn 10. apríl.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.