Erlent

Hættan á hryðjuverkum sögð veruleg og viðbúnaður aukinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ráðherra málefna Norður-Írlands hvatti fólk til að vera á varðbergi en leyfa óttanum ekki að ná tökum á sér.
Ráðherra málefna Norður-Írlands hvatti fólk til að vera á varðbergi en leyfa óttanum ekki að ná tökum á sér. epa/Tolga Akmen

Bresk yfirvöld hafa ákveðið að hækka áhættumat fyrir Norður-Írland upp á næst hæsta viðbúnaðarstig, sem þýðir að hryðjuverk þykja afar líkleg. Ákvörðnin var tekin í kjölfar skotárásar á háttsettan yfirmann í lögreglunni í febrúar.

Hættan á hryðjuverki þykir nú „veruleg“ (e. severe), sem er einu stigi lægra en „alvarleg“ (e. critical). Hættan er sögð „alvarleg“ þegar vitað er til þess að hryðjuverkaárás sé yfirvofandi.

John Caldwell, yfirmaður hjá rannsóknarlögreglunni á Norður-Írlandi, var skotinn nokkrum sinnum af tveimur byssumönnum í febrúar síðastliðnum, þegar hann var að ganga frá fótboltum í skott bifreiðar sinnar eftir knattspyrnuæfingu sonar síns.

Hinn 48 ára faðir liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi. 

Samtökin New IRA lýsti árásinni á hendur sér en þau höfðu þremur mánuðum áður sprengt sprengju á vegi í Strabane þegar lögreglubifreið ók framhjá. Tveir lögreglumenn voru í bifreiðinni en hvorugan sakaði.

Árásirnar þykja færa sönnur á það að hætta stafar af samtökunum. 

Það var Chris Heaton-Harris, ráðherra málefna Norður-Írlands, sem tilkynnti um breytt viðbúnaðarstig í dag. 

Hann sagði að fólk ætti að vera á varðbergi en ekki fyllast ótta. Þá hvatti hann til að hafa þá sem yrðu varir veið eitthvað grunsamlegt til að hafa samband við lögreglu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×