Erlent

Myndband af úkraínskum „nasistum“ tekið upp á yfirráðasvæði Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu sem ráðuneytið birti í gær.
Skjáskot úr myndbandinu sem ráðuneytið birti í gær.

Utanríkisráðuneyti Rússlands birti í gær myndband sem sagt var sýna úkraínska hermenn áreita konu og barn og skjóta á þau, fyrir að tala rússnesku. Myndbandið átti að vera til marks um að úkraínskir hermenn væru nasistar en ráðuneytið fjarlægði það eftir að í ljós kom að það var tekið upp á yfirráðasvæði Rússa í austurhluta Úkraínu.

Myndbandinu hefur einnig verið dreift af málpípum Kreml og einnig á Twittersíðu sendiráðs Rússlands í Bretlandi, þar sem það er enn aðgengilegt.

Myndbandið vakti strax efasemdir þegar það var birt en það á að hafa verið tekið upp þann 24. mars. Konan átti að hafa verið stöðvuð eftir að hún tók fram úr bílalest hermanna.

Það fyrsta sem vakti efasemdir voru merkingar hermannanna á myndbandinu en þeir voru merktir gulu límbandi. Það eru flestir úkraínskir hermenn ekki sagðir hafa gert um nokkuð skeið. Þá þótti bíllinn þar að auki of hreinn miðað við að hann hafi átt að vera í notkun á víglínum Úkraínu, svo eitthvað sé nefnt.

Ötulir netverjar voru þó tiltölulega fljótir að sýna bersýnilega fram á að myndbandið væri sviðsett. Það var með því að finna nákvæma staðsetningu þar sem myndbandið var tekið upp.

Myndbandið var tekið upp á svæði sem Rússar hafa hernumið í Dónetskhéraði. Svæði sem Rússar hafa stjórnað frá upprunalegri innrás þeirra árið 2014, suður af Makívka og austur af Dónetskborg.

Áhugasamir geta séð hvernig upptökustaðurinn fannst í meðfylgjandi Twitter-þræði.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rússar eru gripnir glóðvolgir við fölsun myndefnis seins og þessa myndbands. Meðal annars má nefna tilfelli þar sem Rússar sviðsettu árásir Úkraínumanna á handbendi Rússa í austurhluta Úkraínu.

Þá má einnig nefna tilfelli þar sem myndbandi af úkraínskri konu var dreift til fjölmiðla í Rússlandi. Konan var frá Maríupól en á myndbandinu sakaði hún úkraínska hermenn um að bera ábyrgð á dauðum fjölmargra óbreyttra borgara og að Úkraínumenn hefðu gert mannskæðar árásir á sjúkrahús og leikhús, árásir sem Rússar gerðu.

Við nánari skoðun kom í ljós að lýsigögn myndbandsins sýndu að það var tekið upp á myndavél í eigu Leyniþjónustu Rússlands (FSB).

Sjá einnig: Meint raunasaga úkraínskrar flóttakonu tekin upp af leyniþjónustu Rússlands

Þá má einnig benda á atvik frá 2017 þegar Varnarmálaráðuneyti Rússlands birti myndband sem sýna átti Bandaríkjaher vinna með vígamönnum Íslamska ríkisins.

Fljótt kom í ljós að myndbandið var sett saman úr öðrum myndböndum og þar á meðal úr stiklu fyrir tölvuleik. Ráðuneytið fjarlægði myndbandið.


Tengdar fréttir

Á leið aftur til Úkraínu eftir þjálfun í Bretlandi

Bretar eru búnir að þjálfa úkraínska hermenn í notkun Challenger 2 skriðdreka, sem framleiddir eru í Bretlandi. Hermennirnir og skriðdrekarnir eru nú á leið til Úkraínu. Þjóðverjar hafa einnig að afhent Úkraínumönnum átján Leopard 2 skriðdreka.

Hafa skráð tugi aftaka á stríðsföngum

Starfsmenn Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) hafa skrásett fjölda aftaka á stríðsföngum, bæði úkraínskum og rússneskum, í átökunum í Úkraínu. Mun erfiðara sé þó að fá upplýsingar frá Rússum og fá aðgang að föngum í haldi þeirra.

Selenskí þakklátur Íslandi

Vólódómír Selenskí, forseti Úkraínu, segist vera þakklátur Íslandi fyrir að viðurkenna hungursneyðina í Úkraínu á árunum 1932-1933 sem hópmorð. Alþingi samþykkti í morgun þingsályktunartillögu þess efnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×