Erlent

Óttast að um­deildar breytingar ógni öryggi Ísraels

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregla beitti háþrýstidælum á mótmælendur í Tel Aviv á fimmtudag. Mótmæli héldu áfram um helgina.
Lögregla beitti háþrýstidælum á mótmælendur í Tel Aviv á fimmtudag. Mótmæli héldu áfram um helgina. AP/Oded Balilty

Varnarmálaráðherra Ísraels hvatti ríkisstjórnina til þess að hætta við umdeildar breytingar á dómstólum landsins í gær. Hann óttast að hatrammar deilur um breytingarnar ógni þjóðaröryggi landsins.

Hörð mótmæli hafa geisað í Ísrael vegna breytingar sem ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra vill gera á dómstólum undanfarnar vikur. Um tvö hundruð þúsund manns eru sagðir hafa mótmælt breytingunum í Tel Aviv í gær.

Gagnrýnendur frumvarpsins segja það ógn við lýðræðið. Yrði frumvarpið að lögum fengi ríkisstjórnin frjálsari hendur við val á dómurum og hlutverk hæstiréttar í að úrskurða um lögmæti laga yrði útþynnt.

Einhverjar efasemdaraddir hafa verið innan samsteypustjórnar Netanjahú en Yoav Gallant, varnarmálaráðherra, er fyrsti háttsetti ráðherrann til þess að mæla gegn frumvarpinu opinberlega og afdráttarlaust, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Vaxandi klofningur er byrjaður að teygja sig inn í herinn og öryggisstofnanir. Þetta er klár, aðsteðjandi og raunveruleg ógn við öryggi Ísraels. Ég ætla ekki að taka þátt í þessu,“ sagði Gallant í stuttu sjónvarpsávarpi í gær.

Netanjahú, sem er ákærður fyrir spillingu, er í opinberri heimsókn í London. Hann er undir þrýstingi frá hægriöfgamönnum í ríkisstjórninni um að keyra breytingarnar í gegn. Itamar Ben-Gvir, ráðherra lögreglumála, hvatti hann til þess að reka Gallant sem hann sakaði um að kikna undan þrýstingi mótmælenda.


Tengdar fréttir

Átök í mót­mælum vegna um­deildra breytinga á dóm­stólum

Benjamin Netanyahu, forsætisráherra Ísrael, sagðist í gær ákveðinn í því að knýja fram breytingar á lögum er varða dómstóla, þrátt fyrir hörð mótmæli síðustu vikna. Þúsundir mótmæltu breytingunum í gær og átök brutust út milli mótmælenda og stuðningsmanna Netanyahu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×