Enski boltinn

Vill að stuðnings­menn Man. United kaupi fé­lagið með honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Zilliacus á þegar fótboltafélag í Finnlandi.
Thomas Zilliacus á þegar fótboltafélag í Finnlandi. Getty/May Tse/

Finnskur auðjöfur hefur blandað sér inn í kapphlaupið um að kaupa Manchester United af Glazer-fjölskyldunni.

Thomas Zilliacus er finnskur viðskiptamaður og eigandi finnska fótboltafélagsins HJK Helsinki. Hann býr í Singapúr og auðgaðist fyrst sem yfirmaður hjá Nokia áður en hann stofnað eigin fjárfestingafélag. Hann hefur verið í alls konar viðskiptum síðustu áratugi.

Í dag er Zilliacus stofnandi og stjórnarformaður samfélagsmiðlafyirtækisins novaM Group.

Zilliacus segist hafa lagt inn tilboð í gegnum eignarhaldsfélag sitt sem heitir XXI Century Capital.

Áður var vitað að Katarinn Sheikh Jassim og breski milljarðamæringurinn Sir Jim Ratcliffe vildu eignast enska félagið.

Zilliacus hefur nýstárlegar hugmyndir um kaup og rekstur United. Hann vill þannig að stuðningsmenn Manchester United kaupi félagið með honum og eigi helming í því á móti honum.

„Öll íþróttafélög tilheyra stuðningsmönnum þess. Núverandi þróun þar sem milljarðamæringar, sjeikar og oligarkar taka yfir félögin og breyta þeim í sinn eigin leikvöll er ekki heilbrigð þróun,“ sagði Thomas Zilliacus í yfirlýsingu.

Glazer-fjölskyldan er sögð vilja frá sex milljónir punda fyrir félagið en það yrði það mesta sem hefur verið borgað fyrir íþróttafélag.

Það er mikið í gang á bak við tjöldin þar sem aðilar hafa verið að hækka tilboð sín. Fresturinn til að skila inn tilboðum var framlengdur og það er alvöru peningakapphlaup í gangi um að sannfæra Glazer fjölskylduna um að selja sér þetta heimsfræga og eftirsótta félag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.