Erlent

Átök í mót­mælum vegna um­deildra breytinga á dóm­stólum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Til átaka kom í gær.
Til átaka kom í gær. AP/Ohad Zwigenberg

Benjamin Netanyahu, forsætisráherra Ísrael, sagðist í gær ákveðinn í því að knýja fram breytingar á lögum er varða dómstóla, þrátt fyrir hörð mótmæli síðustu vikna. Þúsundir mótmæltu breytingunum í gær og átök brutust út milli mótmælenda og stuðningsmanna Netanyahu.

Umræddar lagabreytingar munu gefa stjórnvöldum meira vald við útnefningu dómara, takmarka mjög vald hæstaréttar landsins til að úrskurða um lagasetningar og veita þinginu vald til að snúa, eða fara gegn, niðurstöðum dómstóla.

Breytingarnar eru eitt heitasta innanríkismál Ísrael í sögu landsins, enda segja gagnrýnendur þær hreina og beina ógn við lýðræðið.

„Þetta eru ekki endalok lýðræðisins heldur styrking lýðræðisins,“ vildi Netanyahu hins vegar meina í gær. Sagði hann breytingunum ætlað að koma aftur á valdajafnvægi milli kjörinna fulltrúa og ókjörinna dómara.

Forsætisráðherrann sagði aukið vald stjórnvalda yfir útnefningum hæstaréttadómara opna dómstólinn fyrir fleiri sjónarmiðum, sem áður höfðu verið útilokuð. „Við viljum ekki dómstól sem er stjórnað, heldur dómstól sem er í jafnvægi,“ sagði hann.

Netanyahu sagðist myndu gera allt til að lægja öldurnar vegna breytinganna.

Þúsundir mótmæltu í Tel Aviv í gær. AP/Oded Balilty

Mótmælendur eru hins vegar ekki á því að hætta og þá vakti það litla hrifningu að þingið samþykkti í gær með eins atkvæðis meirihluta að gera það enn erfiðara að fjarlægja forsætisráðherrann úr embætti.

„Eins og þjófar um nótt hefur bandalagið nú samþykkt ógeðfelld og spillt persónuleg lög,“ sagði Yair Lapid, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, um löggjöfina sem færir valdið til að koma forsætisráðherranum frá úr höndum dómsmálaráðherra og dómstólanna í hendur þingsins.

Nú þarf samþykki þriggja fjórðuhluta ráðherra og 80 af 120 þingmönnum til að koma forsætisráðherranum frá. 

Breytingin kemur sér afar vel fyrir Netanyahu en dómsmálaráðherrann hafði talað fyrir því að meina forsætisráðherranum aðkomu að breytingum á dómstólum, þar sem hann er sjálfur skotmarkið í nokkrum yfirstandandi dómsmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.