Enski boltinn

Vill að Conte sé nákvæmari í gagnrýni sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte gagnrýndi Pierre Emile Höjbjerg og félaga hans harðlega eftir jafnteflið við Southampton.
Antonio Conte gagnrýndi Pierre Emile Höjbjerg og félaga hans harðlega eftir jafnteflið við Southampton. getty/Chloe Knott

Pierre-Emile Höjberg, leikmaður Tottenham, vill að Antonio Conte, knattspyrnustjóri liðsins, skýri betur hvað hann átti við þegar hann úthúðaði öllu hjá Spurs í sannkallaðri eldræðu á blaðamannafundi eftir 3-3 jafntefli við Southampton í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Conte fór mikinn á blaðamannafundinum og allt og allir tengdir Tottenham fengu það óþvegið. Hann sakaði leikmenn sína um að vera eigingjarna og sagði Tottenham hálf metnaðarlaust félag.

„Gallinn er að enn og aftur sýndum við að við erum ekki lið. Ég sé eigingjarna leikmenn, ég sé leikmenn sem hjálpa ekki hvor öðrum og spila ekki af öllu hjarta,“ sagði Conte meðal annars. „Þeir spila ekki um neitt sem skiptir máli. Þeir vilja ekki spila undir pressu, þeir vilja ekki spila leiki þar sem mikið er undir. Það er auðveldara svona. Þetta er saga Tottenham: Sami eigandi í 20 ár en þeir hafa aldrei unnið neitt. Af hverju?“

Í samtali við Tipsbladet var hinn danski Höjberg spurður út í ummæli Contes. „Ég held við höfum öll séð þetta,“ sagði Höjberg.

„Hann var opinn og heiðarlegur vegna þess að hann er ekki sáttur. Við höfum ekki náð úrslitunum sem liðið vill. En við erum enn þar sem við viljum vera í ensku úrvalsdeildinni. En þetta er erfitt.“

Höjberg skilur Conte ágætlega og vill gera betur en hefði kosið að stjórinn hefði verið nákvæmari í svörum.

„Þú gerir það sem þú gerir til að gleðja hann. Ég veit að ég er heiðarlegur leikmaður sem gefur alltaf hundrað prósent,“ sagði Conte. „Ef þetta er eins og hann sér þetta þá þarf hann að vera aðeins nákvæmari í svörum til að leikmenn geti tekið þetta til sín.“

Fyrsti leikur Spurs eftir landsleikjahléið er gegn Everton mánudaginn 3. apríl.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.