Hópur vísindamanna sótti gögnin þegar þau voru birt en þau innihéldu sýni sem tekin voru í og við umdeildan markað í borginni Wuhan í Kína eftir að Nýja kórónuveiran stakk þar fyrst upp kollinum.
Veiran greindist fyrst í fólki sem tengdist þessum markaði, þar sem dýr voru seld og þar á meðal leðurblökur, sem bera gjarnan kórónuveirur. Kínverskir embættismenn létu farga dýrunum í upphafi faraldursins, áður en hægt var að rannsaka þau. Umrædd sýni eiga þó að hafa verið tekin úr búrum dýra á markaðnum, borðum, kerrum og öðru.

Vísindamenn sem skoðað hafa gögnin segja þau gefa til kynna að veiran hafi mögulega borist í menn í gegnum Marðarhunda (e. Raccoon dog) sem eru refir sem líkjast þvottabjörnum og bera gjarnan kórónuveirur.
Í frétt New York Times segir að hópur vísindamanna hafi nýlega kynnt niðurstöður rannsóknar þeirra á gögnunum fyrir rannsóknarteymi WHO sem leitar uppruna Covid-19.
Kínverskir vísindamenn hafa áður sagt að sýni sem tekin voru á markaðnum hafi sýnt að veiran hafi borist þangað með veiku fólki en ekki dýrum.
„Þessum gögnum, hefði verið hægt að deila og átti að deila, fyrir þremur árum,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO í gær. Hann sagði að yfirvöld í Kína ættu að opinbera gögnin hið snarasta.
Ummæli Ghebreyesusar má heyra hér að neðan. Hann byrjaði að tala um gögnin eftir rúmar fimm mínútur.
LIVE: Media briefing on #COVID19 and other global health issues with @DrTedros https://t.co/tFmuOgLYM0
— World Health Organization (WHO) (@WHO) March 17, 2023
Vísindamenn sem NYT ræddi við segja mörgum spurningum ósvarað um gögnin og sýnin, eins og nákvæmlega hvar þau voru tekin, hvað þau innihéldu og af hverju gögnin birtust á netinu og voru svo fjarlægð aftur.
Það vakti mikla athygli í síðasta mánuði þegar forsvarsmenn Orkustofnunar Bandaríkjanna breyttu skýrslu stofnunarinnar um uppruna Covid-19. Í breyttri skýrslu Orkustofnunarinnar kom fram að starfsmenn stofnunarinnar telji líklegt að kórónuveiran sem veldur Covid-19 hafi lekið af rannsóknarstofu í Wuhan í Kína.
Þó mörgum spurningum sé ósvarað um upphaf faraldurs Covid eru sérfræðingar sammála um að veiran sem olli honum hafi þróast náttúrulega, hvort sem hún barst úr dýrum í menn eða lak fyrir slysni úr rannsóknarstofu.
Margar rannsóknarstofur er að finna í Wuhan og er í nokkrum þeirra unnið að rannsóknum á kórónuveirum. Á svæðinu er mikið af leðurblökum og öðrum dýrum sem bera þessar veirur. Veirurnar hafa verið til rannsóknar í Wuhan um árabil vegna áhyggja, sem kviknuðu við faraldur fuglaflensunnar á árum áður, að kórónuveirur gætu valdið næsta faraldri, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Líklegast þykir að veiran sem veldur Covid-19 hafi borist í menn úr leðurblökum, með mögulegri viðkomu í annarri dýrategund, eins og áður hefur gerst.
Mörgum spurningum er ósvarað um gögnin og sýnin.
Einn vísindamaður sem NYT ræddi við um áðurnefnd gögn sagði að þau sönnuðu ekki að uppruna Covid-19 mætti rekja til marðarhunda en þau gefi sterklega til kynna að sýktir marðarhundar hafi í búrum í markaðnum.
„Þetta vekur upp fleiri spurningar um hvað yfirvöld í Kína vita.“
Allir sem rætt var við voru sammála um að þetta styrki þær kenningar um að veiran hafi fyrst borist úr dýrum í menn en ekki lekið af rannsóknarstofu. Án upprunalega dýrsins sem veiran barst úr, er þó erfitt að segja það með fullvissu.