Erlent

Macron þvingar í gegn breytingar á líf­eyris­kerfi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frakkar risu upp á afturlappirnar þegar ríkisstjórn Emmanuels Macron forseta ætlaði að hækka eftirlaunaaldur um tvö ár.
Frakkar risu upp á afturlappirnar þegar ríkisstjórn Emmanuels Macron forseta ætlaði að hækka eftirlaunaaldur um tvö ár. AP/MIchel Spingler

Franska ríkisstjórnin ákvað að þvinga í gegn óvinsælar breytinga á eftirlaunakerfi landsins rétt áður en atkvæðagreiðsla átti að fara fram um þær í neðri deild þingsins í dag. Ákvörðunin byggir á sérstöku stjórnarskrárákvæði.

Áformum ríkisstjórnar Emmanuels Macron forseta um að hækka eftirlaunaaldur úr 62 árum í 64 hefur verið mætt með mikilli andstöðu, verkföllum og mótmælum í Frakklandi. Þrátt fyrir að hann hafi unnið endurkjör í forsetakosningum í fyrra þar sem hann hafði umbætur á eftirlaunakerfinu á stefnuskrá sinni er flokkur hans ekki með meirihluta á þingi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Rétt áður en þingmenn í neðri deild þingsins áttu að greiða atkvæði um frumvarpið í dag tilkynnti Elisabeth Borne, forsætisráðherra, að ríkisstjórnin ætlaði að nýta sér ákvæði stjórnarskrárinnar sem gerir henni kleift að gera frumvarpið að lögum án aðkomu þingsins.

Þingmenn bauluðu á Borne og var hlé gert á þingfundi þegar vinstrimenn í salnum komu í veg fyrir að forsætisráðherrann gæti tekið til máls með því að syngja þjóðsönginn, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Fyrir utan þinghúsið stóðu vopnaðir verðir og óreiðarlögreglumenn vörð.

Ólíklegt er að ákvörðun ríkisstjórnarinnar verði til þess að lægja öldurnar í frönsku samfélagi. Búist er við því að stjórnarandstaðan leggi fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina í kjölfarið.


Tengdar fréttir

Frakkar vilja ekki hækka eftirlaunaaldurinn

Forseti Frakklands er ákveðinn í að hækka eftirlaunaaldur Frakka úr 62 árum í 64. 70% þjóðarinnar er andsnúinn þeim áformum og komið hefur til harðra mótmæla. Hækkun eftirlaunaaldursins gæti styrkt stöðu franskra þjóðernissinna.

5.600 tonn af rusli hlað­borð fyrir rottur Parísar­borgar

Borgaryfirvöld í París segja 5.600 tonn af rusli hafa safnast upp í borginni eftir að sorphirðustarfsmenn lögðu niður störf til að mótmæla fyrirætlunum stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldurinn úr 62 árum í 64 ár. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.