Erlent

Íranar og Sádar taka aftur upp stjórn­­mála­­sam­band

Kjartan Kjartansson skrifar
Xi Jinping, forseti Kína, (t.h.) tekur í hönd Ebrahims Raisi, forseta Írans, í heimsókn þess síðarnefnda í Beijing í síðasta mánuði.
Xi Jinping, forseti Kína, (t.h.) tekur í hönd Ebrahims Raisi, forseta Írans, í heimsókn þess síðarnefnda í Beijing í síðasta mánuði. AP/skrifstofa forseta Írans

Fulltrúar Írans og Sádi-Arabíu tilkynntu að ríkin tvö ætluðu að taka aftur upp stjórnmálasamband og opna sendiráð sem var lokað í áralöngum illdeilum þeirra í dag. Kínverjar höfðu milligöngu um samningaviðræður ríkjanna.

Grunnt hefur verið á því góða á milli Írans og Sádi-Arabíu undanfarin ár. Íranar eru meðal annars taldir hafa staðið að árás á olíuframleiðslu í Sádí-Arabíu árið 2019. Ríkin styðja hvor sína fylkinguna í stríðinu í Jemen.

Viðræður ríkjanna fóru fram í Beijing. Samkomumlag þeirra kveður á um að ríkin virði fullveldi og skipti sér ekki af innanríkismálum hvort annars.

Samkomulagi ríkjanna er lýst sem meiriháttar sigri fyrir kínversk stjórnvöld í utanríkismálum. Bæði ríkin þökkuðu gestgjöfunum sérstaklega í sameiginlegri yfirlýsingu sinni. AP-fréttastofan segir að Persaflóaríki líti nú svo á að áhrif Bandaríkjamanna í Miðausturlöndum fari smám saman dvínandi. Xi Jingping, forseti Kína, hefur undanfarið fundað með leiðtogum olíuríkja við Persaflóa sem Kínverjar reiða sig á til orkukaupa.

Talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins segir Reuters-fréttastofunni að Bandaríkjastjórn viti af samkomulaginu og að hún fagni öllum tilraunum til þess að binda enda á stríðið í Jemen og draga úr spennu í Miðausturlöndum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×