Erlent

Far­þegi einka­þotu lést í ó­kyrrð

Árni Sæberg skrifar
Þotan er framleidd af Bombardier en ekki liggur fyrir af hvaða gerð hún er. Hér má sjá þotu af gerðinni Bombardier Challenger 600.
Þotan er framleidd af Bombardier en ekki liggur fyrir af hvaða gerð hún er. Hér má sjá þotu af gerðinni Bombardier Challenger 600. Jose Lodos Benavente/Getty

Einkaþota á flugi yfir Nýja Englandi í Bandaríkjunum með fimm innaborðs lenti í mikilli ókyrrð í gærkvöldi með þeim afleiðingum að einn farþeganna lét lífið.

Flugvélin, sem er í eigu fjarskiptafyrirtæksins Conexon, var á leið frá New Hampshire til Virginíu þegar hún lenti í mikilli ókyrrð sem olli dauða eins farþega. Ákveðið var að lenda þotunni, sem er framleidd af Bombardier, í Connecticut en ekkert liggur fyrir að svo stöddu um skemmdir á þotunni. Þetta hefur AP eftir Söruh Sulick, talskonu samgöngunefndar Bandaríkjanna.

Þá liggur ekki fyrir hvort sá látni hafi verið með sætisólar spenntar þegar ókyrrðin reið yfir.

Andlát af völdum ókyrrðar í flugi eru fáheyrð. „Ég man ekki hvenær ókyrrð olli andláti síðast,“ hefur AP eftir Robert Sumwalt, fyrrverandi formanni samgöngunefndar Bandaríkjanna.

Ókyrrð orsakaði hins vegar um þriðjung slysa á fólki í farþegaþotum á tímabilinu 2009 til 2018, samkvæmt gögnum samgöngunefndarinnar. Greint var frá því nýverið að 36 farþegar þotu Hawaiian Airlines hafi þurft að leita sér aðhlynningar eftir mikla ókyrrð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×