Erlent

Sprengdu brýr við Bakhmut og virðast ætla hörfa

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður í Dónetskhéraði vaktar sjóndeildarhringinn.
Úkraínskur hermaður í Dónetskhéraði vaktar sjóndeildarhringinn. Getty/John Moore

Útlit er fyrir að úkraínskir hermenn ætli sér að hörfa eða séu þegar byrjaðir að hörfa frá Bakhmut í Dónetskhéraði. Rússar hafa gert umfangsmiklar árásir á bæinn um mánaða skeið og hafa nú nærri því umkringt hann.

Myndbönd sem hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum í Úkraínu og í Rússlandi í morgun sýna að minnst tvær brýr í Bakhmut hafa verið felldar með sprengingum. Blaðamaður Wall Street Journal segir þó að önnur brúin hafi verið felld fyrir mörgum vikum síðan en hún hafi verið sprengd frekar í morgun.

Hann segir Úkraínumenn hafa aðrar birgðaleiðir inn í Bakhmut.

Hér má sjá myndband af því þegar önnur brúin var sprengd í morgun.

Sérfræðingar bandarísku hugveitunnar Institute for the study of war birtu í nótt kort af stöðunni við Bakhmut sem sýnir glögglega hve nærri því Rússar eru að umkringja bæinn. Undanfarna daga hafa Rússar sett aukna áherslu á að sækja fram norður af Bakhmut og þannig reynt að þvinga Úkraínumenn til að hörfa áður en síðustu birgðaleiðum þeirra til bæjarins verður lokað.

Svo virðist sem það hafi heppnast en ekkert hefur verið staðfest enn.

Sérfræðingar hafa þó spáð því um nokkra vikna skeið að Úkraínumenn þyrftu á endanum að hörfa frá Bakhmut og mynda nýja varnarlínu vestur af bænum.

Yevgeny Prígósjín, eigandi málaliðahópsins Wagner Group, birti myndband í morgun þar sem hann sagði Bakhmut nærri því umkringdann.  Beindi hann orðum sínum til forseta Úkraínu og biður hann um að skipa úkraínska hernum að hörfa.

Því næst eru menn sem eiga að vera úkraínskir hermenn í haldi Wagner sýndir biðja Vólódímír Selenskí, forseta, um að skipa hernum að hörfa.

Bakhmut er nánast rústir einar eftir langvarandi átök þar.

Segja borgurum að yfirgefa Kúpíansk

Yfirvöld í Úkraínu hafa þar að auki skipað borgurum að yfirgefa bæinn Kúpíansk í Kharkívhéraði, sem Úkraínumenn ráku Rússa frá í fyrra. Samkvæmt frétt BBC var það gert vegna stórskotaliðsárása Rússa á bæinn og „óstöðugs öryggisástands“.

Víglínan er þó enn nokkuð austur af Kúpíansk en fregnir hafa borist af gagnárásrum Rússa á þessu svæði undanfarna daga. Rússar eru einnig sagðir líklegir til að reyna að sækja fram við Kremmina, suður af Kúpíansk, en þar munu þeir hafa komið fyrir tölvuerðum hergögnum, samkvæmt yfirvöldum í Lúhanskhéraði.


Tengdar fréttir

Rússneskir öfgamenn réðust á þorp í Rússlandi

Yfirvöld í Rússlandi segja hóp skemmdarverkamanna frá Úkraínu hafa gert árásir á þorp í Bryanskhéraði í Rússlandi. Hópur fjar-hægri Rússa sem er andvígur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, hefur lýst yfir ábyrgð á atvikinu, sem Pútín hefur lýst sem hryðjuverki.

Rúss­neski fáninn málaður á Litlu haf­meyjuna

Enn og aftur hafa skemmdarverk verið unnin á einu helsta kennileiti dönsku höfuðborgarinnar. Rússneski fáninn var í nótt málaður á steininn þar sem Litla hafmeyjan situr við Löngulínu.

Í basli með að senda hlébarða til Úkraínu

Úkraínumönnum hefur verið lofað tugum vestrænna skriðdreka á næstu vikum og mánuðum. Minnst fjórir hafa þegar verið sendir til landsins og er verið að þjálfa hermenn á skriðdrekana í nokkrum löndum. Ríki Evrópu eiga þó í basli með að standa við stóru orðin og gengur erfiðlega að finna skriðdreka.

Finnar byrja að girða sig af frá Rúss­landi

Framkvæmdir við girðingu á hluta landamæra Finnlands og Rússlands eru hafnar. Finnska landamærastofnunin segir að girðingin verði þriggja metra há með gaddavír ofan á henni. Tilgangurinn sé að tryggja landamærin frekar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×