Erlent

Fjölmenn mótmæli í Ísrael: „Þau heyra og þau eru hrædd“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Mikill fjöldi fólks kom saman og mótmælti í Jerúsalem í dag.
Mikill fjöldi fólks kom saman og mótmælti í Jerúsalem í dag. Getty/Amir Levy

Tugþúsundir Ísraelsmanna mótmæltu á götum Jerúsalem í gær vegna fyrirhugaðra breytinga á réttarkerfi landsins. Breytingarnar hafa verið harðlega gagnrýndar, sérstaklega þar sem þær eru kynntar í skugga réttarhalda yfir forsætisráðherra landsins sem grunaður er um spillingu.

Umræddar breytingar myndu gera þinginu kleift að ógilda ákvarðanir hæstaréttar með einföldum meirihluta í atkvæðagreiðslu. Þá myndi ríkisstjórnin hafa frjálsar hendur til að setja hvaða lög sem er án þess að Hæstiréttur leggi mat á þau með fullnægjandi hætti.

Stærstu mótmælin í áraraðir

Samkvæmt AP eru mótmælin í gær þau stærstu sem hafa átt sér stað í ísraelsku höfuðborginni í áraraðir. Í kringum hundrað þúsund mótmælendur söfnuðust saman í nágrenni við ísraelska þingið, Knesset, með mótmælaskilti og ísraelska fána.

„Þau láta eins og þau heyra ekki. Þau láta eins og þau séu ekki hrædd. En þau heyra og þau eru hrædd,“ kallaði Yair Lapid, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels og leiðtogi eins af ísraelsku miðjuflokkunum, yfir mótmælendur í dag.

Yair Lapid, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels.Getty/Amir Levy

Lapid var helsti andstæðingur Netanjahú í síðustu þingkosningum landsins sem fram fóru í nóvember í fyrra.

Samkvæmt skipuleggjendum mótmælanna mættu yfir 100 þúsund manns á þau. Mikil læti voru í hópnum sem söng, flautaði og öskraði. Kallað var eftir lýðræði og ráðamönnum sagt að skammast sín. „Ísrael verður ekki einræðisríki!“ mátti til dæmis heyra mótmælendur öskra í kór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×