Enski boltinn

Ten Hag: Sancho getur haft mikil áhrif

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn United fagna marki Jadon Sancho í kvöld.
Leikmenn United fagna marki Jadon Sancho í kvöld. Vísir/Getty

Erik Tan Hag þjálfari Manchester United viðurkenndi að það væru blendnar tilfinningar að hafa gert jafntefli við Leeds United í kvöld en United kom til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir.

„Að sjálfsögðu erum við ánægðir að hafa náð stigi en við töpuðum tveimur stigum. Þetta var mjög slæm byrjun, óásættanlegt, sérstaklega í nágrannaslag þar sem þú þarft að vera tilbúinn að berjast og taka ábyrgð. Við gerðum það ekki,“ sagði Ten Hag en Leeds komst í 1-0 áður en ein mínúta var liðin af leiknum.

Hann sagði að það hefði ekki komið honum á óvart að Leeds hafi byrjað af krafti.

„Við vissum að þeir yrðu grimmir. Gegn liði sem er á góðu róli vildu þeir reyna að komast í návígin og þeir gerðu það.“

„Við sköpuðum góð færi. Garnacho í tvígang, Sabitzer, skallinn frá Raphael (Varane). Í hálfleik var staðan þannig að við þurftum að jafna en ef þú byrjar seinni hálfleik á sama slæma hátt og þann fyrri þá gerir þú þér þetta erfitt fyrir,“ en annað mark Leeds kom strax í upphafi seinni hálfleiks.

Jadon Sancho kom inn á sem varamaður í leiknum og skoraði jöfnunarmarkið. Hann hefur átt erfitt uppdráttar undanfarna mánuði og ekki komið mikið við sögu í vetur. Ten Hag hafði meðal annars tjáð sig um líkamlegt ástand leikmannsins og sagði hann ekki tilbúinn að æfa með liðinu á þeim tímapunkti.

„Ég vildi öðruvísi dýnamík í leikinn. Á þessu augnabliki vorum við ekki inni í leiknum en sem betur fer heppnaðist þetta því við skoruðum tvö mörk. Ég er mjög ánægður, hann er kominn til baka og við vitum að hann er frábær leikmaður. Ég hugsa stöðugt um hversu mikil áhrif hann getur haft en hann þarf að leggja hart að sér. Þetta mun hvetja hann til að gera meira, þetta mun styrkja hann.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.