Innlent

Aðgerðum lokið án handtöku

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Aðgerðum á Sauðárkróki er nú lokið.
Aðgerðum á Sauðárkróki er nú lokið. vísir/egill

Lögregluaðgerðum á Sauðarkróki er lokið án handtöku. Enginn grunur er um ætlaða refsiverða háttsemi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra á Facebook. Lögregluembættið hefur ekki viljað tjá sig við fjölmiðla vegna málsins en harmar nú fréttaflutning af málinu.

Greint var frá því í kvöld að lögregla hafi ráðist í nokkuð umfangsmiklar lögregluaðgerðir í íbúagötu á Sauðárkróki. Gunnar Hörður Garðarsson samskiptastjóri ríkislögreglustjóra staðfesti í samtali við fréttastofu að sérsveit hafi verið send til Sauðárkróks en hún hafi að öðru leyti ekki komið að málinu. 

RÚV greindi fyrst frá aðgerðum lögreglu. Í frétt RÚV kom fram að grunur væri um að vopnaður maður væri þar innanhúss í götunni og að sögn sjónarvotta væri um nokkurs konar umsátursástand að ræða. Þetta vildi Birgir Jónasson lögreglustjóri hins vegar ekki staðfesta en hann vildi raunar lítið sem ekkert tjá sig við fréttastofu. Vísaði hann til þess að lögregla myndi síðar í kvöld senda frá sér tilkynningu:

„Um miðjan dag í dag, 8. febrúar, bárust lögreglunni á Norðurlandi vestra upplýsingar sem gáfu tilefni til að lögregla greip til aðgerða á Sauðárkróki til að tryggja allsherjarreglu. Við þær aðgerðir naut embættið aðstoðar embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu lögreglu. Enginn hafi verið handtekinn og ekki sé grunur um refsiverða háttsemi.

„Að gefnu tilefni skal tekið fram að ekki var um „umsátur“ að ræða og harmar embættið slíkan fréttaflutning. Lögreglan á Norðurlandi vestra mun ekki upplýsa frekar um málið vegna eðlis þess og viðkvæmni,“ segir í lok tilkynningar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.