Íslenski boltinn

Fyrrum leik­maður ársins og marka­kóngur í Finn­landi til ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Filip Valencic frá dögum sínum sem leikmaður Notts County í Englandi.
Filip Valencic frá dögum sínum sem leikmaður Notts County í Englandi. Getty/Catherine Ivill

Eyjamenn hafa samið við slóvenskan reynslubolta sem var að gera mjög góða hluti í finnsku deildinni.

Hinn 31 árs gamli Filip Valencic skrifaði á dögunum undir eins árs samning við knattspyrnudeild ÍBV.

Filip er miðjumaður sem hefur leikið með öllum yngri landsliðum Slóveníu. Á ferli sínum hefur hann leikið í heimabæ sínum í Ljubljana en síðan einnig með Notts County, Stabæk, Monza og Dinamo Minsk.

Stærsta hluta ferilsins hefur hann spilað í Finnlandi en hann var síðast á mála hjá KuPS og áður hjá Inter Turku, HJK og PS Kemi. Með HJK varð hann finnskur meistari í þrígang. Með KuPS var hann í eldlínunni í undankeppni Sambandsdeildarinnar (UECL) og skoraði þar eitt mark í fjórum leikjum 2022.

Í Finnlandi var Valencic leikmaður ársins árið 2017 og 2019, en seinna árið var hann einnig markahæsti leikmaður deildarinnar, hann getur leyst stöður inni á miðjunni og í sókninni.

Valencic spilaði alls 121 leik í efstu deild í Finnlandi og var með 44 mörk og 25 stoðsendingar í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×