United vann Nottingham Forest, 2-0, í seinni leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins í gær og einvígið 5-0 samanlagt. Keane er hrifinn af því sem Ten Hag hefur gert síðan hann tók við United í sumar.
„Þegar hann kom inn var United á botninum og við þurftum að tala um leikmenn sem voru á förum. Ég er ekki að skjóta á þessa leikmenn en þeir vissu samningur þeirra væri að renna út og þeir væru að fara og það hjálpaði ekki,“ sagði Keane og vísaði þar til leikmanna á borð við Jesses Lingard, Nemanjas Matic og Pauls Pogba sem yfirgáfu United í sumar.
Keane var einnig spurður út í Ronaldo sem yfirgaf United í lok síðasta árs eftir mikla dramatík.
„Enginn vildi hafa þetta hangandi yfir seinni hluta tímabilsins og það hefði átt að taka á þessu í sumar. Þessi Ronaldo staða. Það var augljóst að hann myndi ekki sitja sáttur á bekknum. En nú er búið að leysa þetta og er ekki lengur hangandi yfir félaginu,“ sagði Keane.
„Hann og aðrir aukaleikarar eru farnir. Núna koma aukaleikararnir inn á og eru tilbúnir á meðan þér fannst þeir vera orkusugur á síðasta tímabili.“
Næsti leikur United er gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.