Erlent

Biden segir „nei“ við þotum til handa Úkraínu­mönnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden var skýr í svörum þegar hann var spurður um þotur til handa Úkraínumönnum.
Biden var skýr í svörum þegar hann var spurður um þotur til handa Úkraínumönnum. AP/Andrew Harnik

„Nei,“ svaraði Joe Biden Bandaríkjaforseti einfaldlega þegar hann var spurður að því í Hvíta húsinu í gær hvort Bandaríkjamenn myndu senda F-16 herþotur til Úkraínu. Úkraínumenn kalla nú eftir herþotum eftir að hafa verið lofað skriðdrekum.

Oleksiy Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, mun funda með Emmanuel Macron Frakklandsforseta í París í dag. Til umræðu verður meðal annars sú spurning hvort bandamenn séu viljugir til að sjá Úkraínumönnum fyrir herþotum.

Macron sagði í gær að margt þyrfti að skoða í þessu samhengi, meðal annars hvort slíkar sendingar yrðu til þess að valda stigmögnun. Þá þyrfti að gulltryggja að þoturnar „snertu ekki rússneska jörð“.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir Rússa í hefndarhug vegna ötullar mótspyrnu Úkraínumanna. Þannig standi nú yfir viðstöðulausar árásir í austurhluta landsins. Selenskí hefur ítrekað varað við því að stríðsvél Rússa fari aftur í gang eftir pattstöðu síðustu mánaða og kallað eftir meiri vopnum.

Ráðamenn í Kænugarði voru þannig ekki fyrr búnir að fá jákvætt svar frá Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum um skriðdreka fyrr en þeir kröfðust þess að fá einnig þotur. 

Menn eru hins vegar uggandi yfir mögulegum viðbrögðum Rússa. 

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, sagði í gær að frekari vopnasendingar yrðu aðeins til að stigmagna átökin. Stjórnvöld í Kænugarði kölluðu eftir meiri og meiri vopnum og aðildarríki Atlantshafsbandalagsins yrðu alltaf meira og meira viðriðin átökin með beinum hætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.