Enski boltinn

Kveður Brighton á samfélagsmiðlum skömmu eftir að tilboði Arsenal var hafnað

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vill komast frá Brighton.
Vill komast frá Brighton. vísir/Getty

Ekvadorski miðjumaðurinn Moises Caicedo virðist vera á leið frá Brighton en hann er eftirsóttur af Lundúnarliðunum Arsenal og Chelsea.

Þessi 21 árs gamli miðjumaður setti inn áhugaverða færslu á samfélagsmiðla sína seint í gærkvöldi þar sem hann virðist vera að kveðja Brighton en enskir fjölmiðlar greindu hins vegar frá því í gærdag að félagið hefði hafnað tilboði upp á 60 milljónir punda frá Arsenal.

„Ég er stoltur af því að hjálpa Brighton með því að verða dýrasti leikmaður í sögu félagsins sem hjálpar þeim að fjárfesta í framtíðinni svo félaginu haldi áfram að ganga vel,“ er meðal þess sem Caicedo segir í færslunni.

Caicedo virðist með þessu vera að setja pressu á vinnuveitendur sína en hann hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn í ensku úrvalsdeildinni í vetur eftir að hafa verið lánaður til Beerschot í Belgíu í upphafi síðasta tímabils. Hefur hann aðeins leikið 26 leiki fyrir Brighton síðan hann var keyptur til félagsins í ársbyrjun 2021.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum vill Brighton fá yfir 100 milljónir punda fyrir Caicedo og því ber töluvert í milli í viðræðum Arsenal og Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×