Erlent

Tölu­verðar á­hyggjur uppi vegna stöðunnar á Vestur­bakkanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hinn 22 ára Yusef Muhaisen borinn til grafar en hann var meðal þeirra sem lést í átökunum við Ísraela í gær.
Hinn 22 ára Yusef Muhaisen borinn til grafar en hann var meðal þeirra sem lést í átökunum við Ísraela í gær. AP/Majdi Mohammed

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, óttast að ástandið á Vesturbakkanum eigi eftir að versna enn frekar eftir að tveimur eldflaugum var skotið frá Gaza í morgun og svarað með loftárásum Ísraelsmanna.

Vopnaskakið má rekja til þess að níu Palestínumenn létust í árás hermanna Ísraelshers á Jenin-flóttamannabúðirnar í gær. Tuttugu særðust alvarlega en tveir hinna föllnu eru sagðir hafa tilheyrt Palestinian Islamic Jihad, fjórir Hamas og einn vopnuðum væng Fatah-flokks forsetans Mahmoud Abbas.

Palestínsk yfirvöld tilkynntu í kjölfar árásarinnar að þau myndu láta af öryggisssamvinnu við Ísraelsmenn. Heilbrigðisráðherrann Mai al-Kaila sagði ástandið í Jenin afar viðkvæmt en hermenn Ísrael hefðu meinað sjúkrabifreiðum aðgangi að búðunum.

Skömmu eftir miðnætti skutu palestínskir bardagamenn tveimur eldflaugum frá Gaza í átt að Ísrael en flaugarnar voru skotnar niður af eldflaugavarnarkerfum Ísraelsmanna. Þeir svöruðu með loftárás á Gaza.

Barbara Leaf, æðsti sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Mið-Austurlanda, sagði stjórnvöld vestanhafs verulega áhyggjufull vegna ástandsins og harmaði mannfallið. Hún sagði hins vegar að ákvörðun Palestínumanna um að hætta samvinnu við Ísrael væri mistök.

Þá setti hún spurningamerki við þá yfirlýsingu Palestínumanna um að fara með málið til Sameinuðu þjóðanna og fyrir alþjóðastríðsglæpadómstólinn.

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og Arabaríkjanna sögðu í gær að unnið væri að viðræðum aðila til að draga úr spennu á svæðinu. Þá hafa Sameinuðu arabísku furstadæmin, Kína og Frakkland óskað eftir lokuðum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.

Blinken mun ferðast til Mið-Austurlanda á sunnudag til að eiga fundi um stöðuna og heimsækja Egyptaland, Ísrael og Vesturbakkann.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.