Enski boltinn

Liverpool leiðir kapphlaupið um Bellingham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jude Bellingham verður einn eftirsóttasti bitinn á markaðnum í sumar.
Jude Bellingham verður einn eftirsóttasti bitinn á markaðnum í sumar. Edith Geuppert - GES Sportfoto/Getty Images

Þrátt fyrir áhuga frá stórliðum á borð við Manchester City og Real Madrid leiðir Liverpool kapphlaupið um að kaupa enska miðjumanninn Jude Bellingham frá Borussia Dortmund.

Þetta segir Florian Plettenberg, íþróttafréttamaður hjá Sky Germany. Hann segir að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vinni nú hörðum höndum að því að sannfæra þennan eftirsótta leikmann um að velja Liverpool sem sinn næsta áfangastað.

Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall hefur miðjumaðurinn verið á radarnum hjá mörgum af stærstu liðum heims í langan tíma. Hann hefur skorað tíu mörk í 23 leikjum í öllum keppnum fyrir Dortmund á tímabilinu.

Klopp hefur nú þegar gefið í skyn að miklar breytingar verði á leikmannahópi Liverpool í sumar. Gengi liðsins á tímabilinu hefur ekki verið upp á marga fiska og liðið situr í níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Þá höfðu margir áhyggjur af miðsvæði Liverpool-liðsins fyrir tímabilið og miðað við spilamennsku Liverpool á tímabilinu er ljóst að það er svæði sem liðið þarf að styrkja.

„Við teljum öll að Bellingham muni yfirgefa Dortmund í sumar og það er ekki séns að Dortmund haldi honum eins og staðan er núna,“ sagði Plettenberg.

„En hann er samningsbundinn Dortmund og það er ekkert losunarákvæði í samningnum þannig að verðmiðinn er mjög hár. Dortmund vill fá á bilinu 100 til 150 milljónir evra fyrir hann í sumar.“

„Það eru þrír mögulegir áfangastaðir fyrir hann: Real Madrid, Manchester City og Liverpool. Liverpool er einn af líklegustu áfangastöðunum . Jürgen Klopp er að ýta á að fá hann og segir að það sé forgangsatriði númer eitt að fá hann.“

Bellingham er samningsbundinn Dortmund til ársins 2025 og því getur félagið sett gríðarlega háan verðmiða á þennan eftirsótta leikmann. Þrátt fyrir ungan aldur á hann að baki 77 deildarleiki fyrir Dortmund og 22 leiki fyrir enska landsliðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.