Enski boltinn

Jökull fenginn á neyðarláni vegna meiðsla en leiknum frestað

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jökull Andrésson er mættur til Exeter í þriðja sinn á ferlinum, í þetta sinn á sjö daga neyðarláni.
Jökull Andrésson er mættur til Exeter í þriðja sinn á ferlinum, í þetta sinn á sjö daga neyðarláni. Harry Trump/Getty Images

Markvörðurinn Jökull Andrésson skrifaði í dag undir sjö daga lánssamning við enska C-deildarliðið Exeter City. Jökull átti að bjarga Exeter út úr meiðslavandræðum, en leik liðsins sem átti að fara fram í kvöld hefur verið frestað.

Exeter og Barnsley áttu að mætast í ensku C-deildinni síðar í kvöld í mikilvægum leik fyrir bæði lið í baráttunni um umspilssæti um laust sæti í ensku B-deildinni.

Hins vegar hefur níu leikjum í neðri deildum Englands sem áttu að fara fram í kvöld verið frestað vegna þess að vellirnir eru frosnir. Leikur Exeter og Barnsley er meðal þeirra níu leikja sem var frestað eftir að völlurinn var skoðaður og metinn fyrir skemmstu.

Eins og áður segir var Jökull fenginn á láni í aðeins sjö daga, en ekki hefur verið ákveðin ný dagsetning fyrir leikinn sem átti að fara fram í kvöld. Exeter sækir þó MK Dons heim næstkomandi laugardag og spurning hvort Jökull fái að spreyta sig í þeim leik.

Jökull er samningsbundinn Reading sem leikur í ensku B-deildinni. Hann hefur verið á mála hjá liðinu síðan árið 2018, en hefur ekki enn spilað leik fyrir aðallið félagsins. Þetta er hins vegar í þriðja skipti sem hann fer á láni til Exeter, en það gerði hann einnig árin 2020 og 2021. Alls hefur hann leikið 32 leiki fyrir Exeter og haldið hreinu í ellefu þeirra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.