Íslenski boltinn

Keflavík fær markvörð sem fékk varla á sig mark í Færeyjum

Sindri Sverrisson skrifar
Mathias Rosenørn er nýr markvörður Keflavíkur.
Mathias Rosenørn er nýr markvörður Keflavíkur. ki.fo

Keflvíkingar hafa fundið markvörð til að fylla í skarðið sem Sindri Kristinn Ólafsson skildi eftir þegar hann gekk í raðir FH í vetur.

Keflavík staðfesti í dag að félagið hefði samið við danska markvörðinn Mathias Rosenørn sem farið hefur á kostum í Færeyjum síðustu ár.

Rosenørn hefur tvö ár í röð sett met í efstu deild Færeyja yfir fæst mörk fengin á sig, auk þess að verða færeyskur meistari bæði árin með KÍ Klaksvík.

Fyrra árið fékk KÍ á sig tólf mörk en Rosenørn, sem er 29 ára, fékk svo aðeins á sig sjö mörk í 27 leikjum á síðustu leiktíð.

„Við erum svo sannarlega spennt að fá Mathias til okkar í deild þeirra bestu,“ skrifa Keflvíkingar á Facebook-síðu sína.

Keflvíkingar enduðu í 7. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð en hafa misst marga leikmenn síðan þá. Finnski miðvörðurinn Dani Hatakka fylgdi Sindra til FH, Adam Ægir Pálsson lauk lánsdvöl sinni frá Víkingum og er nú orðinn leikmaður Vals, framherjinn Joey Gibbs fór í Stjörnuna og Færeyingurinn Patrik Johannesen í Breiðablik, vængmaðurinn Kian Williams til Kanada og bakvörðurinn öflugi Rúnar Þór Sigurgeirsson til Öster í Svíþjóð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.