Enski boltinn

„Mýta að Tottenham hafi ekki stutt Conte“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte var sáttur eftir sigurinn á Fulham.
Antonio Conte var sáttur eftir sigurinn á Fulham. getty/Clive Rose

Gary Neville segir það mýtu að Tottenham hafi ekki stutt við bakið á Antonio Conte á félagaskiptamarkaðnum.

Tottenham sigraði Fulham í gær, 1-0, og hélt loksins hreinu, eftir að hafa fengið á sig 21 mark í tíu leikjum þar á undan.

Spurs er aðeins þremur stigum frá Meistaradeildarsæti og Neville segir að stuðningsmenn liðsins ættu að vera nokkuð sáttir með stöðuna sem það er í.

„Tottenham eru mjög heppnir að vera með Antonio Conte. Hann kom þeim í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili. Hann er að gera það sem þeir ætlast til. Þeir eru bara nokkrum stigum frá Meistaradeildarsæti. Ég myndi segja að þeir séu á pari. Þeir þurfa að sjá hvaða tækifæri þeir hafa til að eiga frábært tímabil,“ sagði Neville.

Að hans mati er Conte í góðri stöðu hjá Tottenham. „Hvað starf mun hann fá sem er betra en það sem hann er í hjá Tottenham? Þeir eru í Meistaradeildinni, þeir eru með ótrúlegasta leikvang í Evrópu og hann hefur fengið tvö hundruð milljónir punda til að eyða í tveimur félagaskiptagluggum svo sú skoðun að Tottenham hafi ekki stutt hann er mýta,“ sagði Neville.

Næsti leikur Tottenham er gegn Preston North End í ensku bikarkeppninni á laugardaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.