Erlent

Sjö látnir eftir annað fjölda­morðið í Kali­forníu á fá­einum dögum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Kaliforníu var kölluð út vegna árásarinnar á sveitabýlinu um miðjan dag í gær að staðartíma.
Lögregla í Kaliforníu var kölluð út vegna árásarinnar á sveitabýlinu um miðjan dag í gær að staðartíma. AP

Lögregla í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur handtekið 67 ára karlmann eftir að hann skaut sjö manns hið minnsta til bana á tveimur bóndabæjum í Half Moon Bay, suður af San Francisco, í gærkvöldi.

NBC segir að einn sé alvarlega særður eftir árásirnar. Fram kemur að fjórir hafi verið myrtir á einum árásarstaðnum og þrír á hinum.

Hinn 67 ára Zhao Chunli mætti sjálfur á lögreglustöð og gaf sig fram.AP

Hin látnu eiga öll að hafa verið kínverskir verkamenn, en lögregla rannsakar enn tilefni árásarinnar. 

Árásirnar áttu sér stað annars vegar á sveitabýli þar sem verið er að rækta sveppi og hins vegar á lóð vöruflutningafyrirtækis. Meintur árásarmaður að hafa starfað á öðrum staðnum og voru hin látnu samstarfsmenn hans.

Í Twitter-færslu lögreglunnar í San Mateo kemur fram að almenningi stafi engin ógn af árásarmanninum lengur enda hafi hann verið handtekinn. Bandarískir fjölmiðlar segja að árásarmaðurinn, hinn 67 ára Zhao Chunli, hafi sjálfur mætt á lögreglustöð og gefið sig fram, um tveimur tímum eftir árásina.

Þetta er annað fjöldamorðið í Kaliforníu á fáeinum dögum en á laugardagskvöld banaði eldri karlmaður ellefu manns og særði á annan tug fólks í dansstúdíói í Monterey Park þar sem verið var að fagna áramótum samkvæmt kínverska dagatalinu. Árásarmaðurinn þar svipti sig lífi nokkru eftir árásina.

Lögregla greindi frá því á blaðamannafundi í gærkvöldi að meintur árásarmaður á að hafa verið einn að verki og að skotvopn hafi fundist í bíl hans.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, segist hafa verið á sjúkrahúsi til að ræða við fólk sem særðist í árásinni í Monterey Park þegar hann hafi fengið upplýsingar um árásina í Half Moon Bay. „Harmleikur á harmleik ofan,“ segir Newsom.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×