Enski boltinn

Enn syrtir í álinn hjá Everton

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frank Lampard er í tómum vandræðum hjá Everton.
Frank Lampard er í tómum vandræðum hjá Everton. Vísir/Getty

Everton tapaði enn einum leiknum í ensku úrvalsdeildinni í dag en liðið er án sigurs í síðustu sjö deildarleikjum. Nottingham Forest og Wolves unnu góða heimasigra.

Everton mætti liði Southampton á heimavelli í dag. Amadou Onana kom lærisveinum Frank Lampard í forystu á 39.mínútu og staðan í hálfleik var 1-0 Everton í vil. Í síðari hálfleik var það James Ward Prowse sem átti sviðið.

Ward Prowse byrjaði á því að jafna metin strax í upphafi síðari hálfleiks eftir sendingu frá Che Adams og hann skoraði síðan sigurmark Southampton á 78.mínútu. Með sigrinum tókst Southampton að jafna Everton að stigum í töflunni, bæði lið eru með fimmtán stig í fallsæti.

Það er verulega heitt undir Frank Lampard í stjórastólnum hjá Everton en liðið hefur ekki unnið sigur í síðustu sjö deildarleikjum en síðasti sigur liðsins kom í október þegar liðið vann 3-0 sigur á Crystal Palace.

Brennan Johson fagnar öðru marki sínu í sigri Nottingham Forest í dag.Vísir/Getty

Nottingham Forest er komið upp í þrettánda sæti úrvalsdeildarinnar eftir 2-0 sigur á Leicester á heimavelli. Brennan Johnson skoraði bæði mörkin í sigrinum en sigurinn er sá annar í röð hjá Forest

Úlfarnir unnu mikilvægan 1-0 sigur á West Ham í dag. Daniel Podence skoraði eina mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks en Wolves skilur West Ham eftir í fallsæti með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×