Erlent

Sér­fræðingar segja 900 milljónir Kín­verja hafa fengið Co­vid-19

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnvöld í Kína hafa neitað að niðurgreiða bóluefnið frá Pfizer.
Stjórnvöld í Kína hafa neitað að niðurgreiða bóluefnið frá Pfizer. AP/Chinatopix

Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Peking University hafa um það bil 900 milljónir manns í Kína smitast af Covid-19. Þá er áætlað að um það bil 64 prósent íbúa landsins séu nú með veiruna.

Stjórnvöld í Kína hafa ekki gefið út upplýsingar um stöðu faraldursins, fjölda smitaðra né látinna.

Samkvæmt rannsókninni hafa um 91 prósent íbúa í Gansu-héraði smitast af veirunni, 84 prósent í Yunnan og 80 prósent í Qinghai.

Zeng Guang, fyrrverandi yfirmaður sóttvarnastofnunar Kína, segir smitum munu fjölga á landsbyggðinni á meðan Kínverjar fagna nýja árinu. Þá segist hann gera ráð fyrir að hámark faraldursins muni vara í tvo til þrjá mánuði áður en smitum fer að fækka.

Engar opinberar upplýsingar hafa verið gefnar út um stöðu kórónuveirufaraldursins í Kína frá því að stjórnvöld féllu frá því að reyna að halda smitum í núll. Hins vegar hefur mátt lesa stöðuna úr álaginu á sjúkrahúsum stórborga landsins.

Zeng sagði í samtali við Caixin-fréttastofuna fyrr í þessum mánuði að það væri kominn tími til að einblína á landsbyggðina. Þar væri margt eldra fólk og fólk í áhættuhópum sem hefði verið án nokkur bjargráða.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gagnrýnt stjórnvöld í Kína fyrir að greina ekki frá raunverulegum fjölda andláta af völdum Covid. Samkvæmt opinberum gögnum eru þau rétt rúmlega 5.000. Alþjóðlegir sérfræðingar segja hins vegar líklegt að um milljón manns mun deyja af völdum sjúkdómsins í ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×