Enski boltinn

Rauða spjaldið sem Félix fékk kostar Chelsea 209 milljónir króna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joao Félix situr á grasinu eftir að hafa tæklað Kenneth Tete. Andartaki síðar fékk Portúgalinn rautt spjald.
Joao Félix situr á grasinu eftir að hafa tæklað Kenneth Tete. Andartaki síðar fékk Portúgalinn rautt spjald. getty/Ryan Pierse

Rauða spjaldið sem Joao Félix fékk í sínum fyrsta leik fyrir Chelsea reyndist ekki bara dýrt innan vallar heldur tekur það einnig í buddu félagsins.

Félix var rekinn af velli þegar Chelsea tapaði, 2-1, fyrir Fulham í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þetta var fyrsti leikur Portúgalans fyrir Chelsea eftir að hann kom til félagsins á láni frá Atlético Madrid.

Chelsea greiddi Atlético Madrid níu milljónir punda til að fá Félix auk þess sem félagið borgar laun hans, sem eru talin nema samtals sex milljónum punda. Félix kostar Chelsea því samtals fimmtán milljónir punda, eða rúmlega 714.000 pund á hvern leik sem eftir er í ensku úrvalsdeildinni.

Ljóst er að Félix fer í þriggja leikja bann og því kostar rauða spjaldið sem hann fékk félagið rúmlega 2,1 milljón punda, eða 209 milljónir íslenskra króna.

Félix var sprækur áður en hann tæklaði Kenneth Tete glæfralega á 58. mínútu. Þá var staðan 1-1. Carlos Vinícius skoraði sigurmark Fulham stundarfjórðungi seinna.

Með sigrinum komst Fulham upp í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Chelsea er aftur á móti í því tíunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×