Enski boltinn

Trúir ekki að United ætli að fá Weghorst: „Þetta hlýtur að vera hrekkur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wout Weghorst fagnar eftir að hafa skorað eftirminnilegt mark eftir aukaspyrnu í leik Hollands og Argentínu á HM 2022.
Wout Weghorst fagnar eftir að hafa skorað eftirminnilegt mark eftir aukaspyrnu í leik Hollands og Argentínu á HM 2022. getty/Patrick Smith

Wesley Sneijder trúir því ekki að Manchester United ætli að semja við hollenska framherjann Wout Weghorst og segir að um hrekk hljóti að vera að ræða.

United ku vera í viðræðum við Burnley um að fá Weghorst lánaðan út tímabilið. Hann hefur spilað með Besiktas í Tyrklandi í vetur.

Weghorst gerði vel með hollenska landsliðinu á HM í Katar og skoraði meðal annars bæði mörk þess gegn Argentínu í átta liða úrslitunum. Sneijder segir að United-menn hljóti að hafa látið glepjast af því.

„Sem framherji, er hann virkilega það sem United hefur verið að bíða eftir? Ég held ekki. Það eru svona þrjú hundruð svona leikmenn í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Sneijder. „Þetta hlýtur að vera hrekkur. Þetta getur ekki verið satt.“

Burnley keypti Weghorst fyrir ári en hann náði sér ekki á strik með liðinu á síðasta tímabili og skoraði aðeins tvö mörk í tuttugu leikjum fyrir það. 

Hinn þrítugi Weghorst skoraði hins vegar grimmt með Wolfsburg í Þýskalandi, alls sjötíu mörk í 144 leikjum. Í vetur hefur Hollendingurinn svo skorað níu mörk í átján leikjum fyrir Besiktas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×