Enski boltinn

Segir að Villa-menn hafi verið hræddir við D-deildarliðið sitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Evans hefur farið víða á stjóraferlinum en er núna með Stevenage í ensku D-deildinni.
Steve Evans hefur farið víða á stjóraferlinum en er núna með Stevenage í ensku D-deildinni. getty/Clive Mason

Eftir að Stevenage sló Aston Villa úr leik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar sagði Steve Evans, knattspyrnustjóri D-deildarliðsins, að Villa-menn hefðu verið skíthræddir við hans menn.

Villa komst yfir þegar þrjár mínútur voru eftir í leiknum gegn Stevenage í gær og allt benti til þess að úrvalsdeildarliðið myndi fara áfram. En D-deildarliðið gafst ekki upp. Jamie Reid jafnaði úr vítaspyrnu skömmu síðar og Dean Campbell skoraði svo sigurmark þess á lokamínútu leiksins.

Evans, hinn skrautlegi stjóri Stevenage, ákvað að salta í sár Villa eftir leikinn.

„Við vildum láta Villa leggja sig eins mikið fram og þeir myndu gera gegn Arsenal, Manchester City eða Manchester United en kannski gleymdu einhverjir þeirra að gera það undir lokin, jafnvel þótt sumir þeirra hafi ekki spilað níutíu mínútur oft,“ sagði Evans og vísaði til þess að Unai Emery, stjóri Villa, gerði átta breytingar á liði sínu milli leikja.

„Það var sennilega einhver ótti til staðar. Við jöfnuðum á 88. mínútu, vorum með þrjá frammi og áttum nokkrar sóknir sem ekkert varð úr. En þegar þú horfir aftur á hornspyrnuna sem leiddi til marksins sérðu alla leikmenn Villa inni í vítateignum. Það var hræðsla. Leikmennirnir héldu að þeir myndu falla úr leik fyrir D-deildarliði.“

Stevenage mætir Stoke City í 4. umferð ensku bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×