Vara­maðurinn Ras­h­ford hetja Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Marcus Rashford kom inn af bekknum og skoraði sigurmark Man United.
Marcus Rashford kom inn af bekknum og skoraði sigurmark Man United. Matthew Ashton/Getty Images

Fyrsti leikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni fór fram á Molineux-vellinum þar sem heimamenn í Wolves tóku á móti Manchester United. Fór það svo að gestirnir unnu 1-0 sigur þar sem Marcus Rashford skoraði eina mark leiksins.

Rashford var ekki í byrjunarliði Man United en fyrir leik staðfesti Erik ten Hag að hann væri í agabanni. Rashford var þó á bekknum og í hálfleik var stuðningsfólk Man Utd lagst á bæn um að hann kæmi inn á sem fyrst. 

Líkt og svo oft áður var leikur þessara liða ekki mikið fyrir augað en gestirnir frá Manchester fengu þó talsvart hættulegri færi í fyrri hálfleik, ef færi skildi kalla. Staðan markalaus í hálfleik. Stuðningsfólk Man United fékk svo ósk sína uppfyllta en Rashford kom inn fyrir Alejandro Garnacho í hálfleik. 

Það var svo áðurnefndur Rashford sem braut loks ísinn á þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. Rashford fékk boltann út á vinstri vængnum, kom inn á völlinn og gaf á Bruno Fernandes sem gaf aftur á Rashford í svæði. Sóknarmaðurinn stóð í lappirnar þó Jonny, bakvörður Úlfanna, hafi gert sitt besta til að toga hann niður og átti svo skot sem fór milli fóta á miðverinum Toti sem og markverðinum José Sá.

Rashford hélt hann hefði gulltryggt sigurinn á 84. mínútu þegar Sá varði skot hans af stuttu færi en boltinn fór aftur í sóknarmanninn og þaðan í netið. Markið var hins vegar dæmt af þar sem boltinn fór af hendinni á Rashford sem var þó með hana alveg upp við líkamann.

Undir lok leiks ógnuðu Úlfarnir verulega og David De Gea þurfti að verja vel eftir hornspyrnu. Hann hafði fyrr í leiknum varið aukaspyrnu Rúben Neves meistaralega og fór það svo að Man United vann mikilvægan 1-0 sigur á Molineux-vellinum.

Man United er nú í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 32 stig eftir 16 leiki. Úlfarnir eru í 18. sæti með 13 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira