Erlent

Skatt­skýrslur Trump birtar á föstu­dag

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump var forseti Bandaríkjanna á árunum 2017 til 2021.
Donald Trump var forseti Bandaríkjanna á árunum 2017 til 2021. Getty

Donald Trump var á sínum tíma fyrsti forsetaframbjóðandinn í Bandaríkjunum svo áratugum skiptir sem gerði ekki skattskýrslur sínar opinberar í kosningabaráttu, hvorki 2016 né 2020. Að sögn AP verða skattskýrslurnar hins vegar gerðar opinberar næstkomandi föstudag að sögn talsmanns þingnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Þingnefndin, þar sem demókratar eru enn í meirihluta, komst yfir skattaskýrslunar í síðasta mánuði eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að afhenda skyldi nefndinni skýrslurnar eftir margra ára málaferli Trump og Demókrata.

Formaður þingnefndarinnar, Richard Neal, sagði í síðustu viku að málið sneri að forsetaembættinu en ekki forsetanum, og því sé rétt að birta skattskýrslunar.

Nýtt þing kemur saman þann 3. janúar næstkomandi og verða repúblikanar þá í meirihluta, en þingkosningar fóru fram í landinu í upphafi síðasta mánaðar.

Trump hefur alla tíð barist gegn því að skýrslurnar yrðu gerðar opinberar. Meirihluti þingnefndarinnar samþykkti fyrir jól að birta skyldi skattskýrslurnar, þar sem 24 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en sextán gegn.

Nefndin opinberaði í síðustu viku að bandarísk skattayfirvöld hefðu ekki endurskoðað skattskýrslur Trump fyrstu tvö árin sem hann var forseti jafnvel þó að reglur kveði á um að það skuli gert. Skatturinn hafi aldrei lokið við skoðun á skattskilum Trump á meðan hann var forseti þar sem hann reyndi að hægja á henni með ýmsum ráðum.


Tengdar fréttir

Sam­þykktu að birta skatt­skýrslur Trumps

Bandarísk þingnefnd samþykkti að birta skattskýrslur Donalds Trump, fyrrverandi forseta, sem hann hefur alla tíð barist gegn að verði opinberar. Hún segir að skatturinn hafi aldrei endurskoðað skattskýrslur Trump þrátt fyrir reglur um það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×