Þingnefndin, þar sem demókratar eru enn í meirihluta, komst yfir skattaskýrslunar í síðasta mánuði eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að afhenda skyldi nefndinni skýrslurnar eftir margra ára málaferli Trump og Demókrata.
Formaður þingnefndarinnar, Richard Neal, sagði í síðustu viku að málið sneri að forsetaembættinu en ekki forsetanum, og því sé rétt að birta skattskýrslunar.
Nýtt þing kemur saman þann 3. janúar næstkomandi og verða repúblikanar þá í meirihluta, en þingkosningar fóru fram í landinu í upphafi síðasta mánaðar.
Trump hefur alla tíð barist gegn því að skýrslurnar yrðu gerðar opinberar. Meirihluti þingnefndarinnar samþykkti fyrir jól að birta skyldi skattskýrslurnar, þar sem 24 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en sextán gegn.
Nefndin opinberaði í síðustu viku að bandarísk skattayfirvöld hefðu ekki endurskoðað skattskýrslur Trump fyrstu tvö árin sem hann var forseti jafnvel þó að reglur kveði á um að það skuli gert. Skatturinn hafi aldrei lokið við skoðun á skattskilum Trump á meðan hann var forseti þar sem hann reyndi að hægja á henni með ýmsum ráðum.