Totten­ham kom til baka gegn Brent­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. Eddie Keogh/Getty Images

Enska úrvalsdeildin í fótbolta fór af stað með pompi og prakt eftir nokkurra vikna frí vegna HM í Katar. Fyrsti leikur dagsins var leikur Brentford og Tottenham Hotspur en hann var vægast sagt spennandi, lokatölur 2-2. 

Athygli vakti að hinn 33 ára gamli Ivan Perišić var í byrjunarliði Tottenham í dag.  Hann var lykilmaður í bronsliði Króatíu á HM og lék svo gott sem hverja einustu mínútu liðsins á mótinu. Liðið lauk leik á HM þann 17. desember síðastliðinn en Perišić var samt sem áður mættur til leiks í Lundúnum í dag.

Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og skoraði Vitaly Janelt eftir rétt rúman stundarfjórðung. Staðan í hálfleik hefði getað verið mun verri fyrir gestina en mark Ivan Toney var dæmt af og staðan aðeins 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Þó enska knattspyrnusambandið sé að rannsaka Toney fyrir brot á veðmálareglum sambandsins þá var hann samt sem áður í byrjunarliðinu í dag. Hann var hvergi nærri hættur þó mark hafi verið dæmt af en framherjinn tvöfaldaði forystu Brentford á 54. mínútu leiksins.

Gestirnir gáfust þó ekki upp og Harry Kane minnkaði muninn rúmum tíu mínútum síðar. Það var svo Pierre-Emile Højbjerg sem jafnaði metin þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. 

Kane átti skalla í þverslánna þegar lítið var eftir af leiknum en allt kom fyrir ekki og lauk leiknum með 2-2 jafntefli.

Eftir jafntefli dagsins er Tottenham nú í 4. sæti með 30 stig að loknum 16 leikjum á meðan Brentford er með 20 stig í 9. sæti eftir jafn marga leiki.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira