Erlent

Ekki ölmusa heldur fjárfesting í öryggi og lýðræði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Zelensky var vel tekið á bandaríska þinginu í gær.
Zelensky var vel tekið á bandaríska þinginu í gær. epa/Michael Reynolds

„Fjárstuðningur ykkar er ekki ölmusa. Hann er fjárfesting í öryggi heimsins og lýðræði, sem við förum með á sem ábyrgastan hátt,“ sagði Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti þegar hann ávarpaði Bandaríkjaþing í gærkvöldi.

Selenskí heimsótti þingið og Hvíta húsið í gær, í sinni fyrstu opinberu heimsókn á erlendri grundu frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn.

Honum var vel tekið af þingmönnum bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins, þrátt fyrir að köll heyrist nú í síðarnefnda hópnum um endurskoðun fjárframlaga Bandaríkjanna til Úkraínu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi eftir tveggja tíma fund með Selenskí að það væri hins vegar engan bilbug að finna meðal bandamanna og að Bandaríkin myndu styðja Úkraínu eins lengi og þörf krefði.

Biden sagði Selenskí hafa ítrekað mikilvægi samstöðu út árið 2023 og sagði ekki myndu skorta á hana af hálfu Bandaríkjamanna. Fyrr um daginn var tilkynnt um viðbótarframlag Bandaríkjanna upp á 1,8 milljarð dala, þar á meðal Patriot eldflaugavarnakerfi.

Á blaðamannafundinum var Selenskí spurður að því hvað hann teldi „sanngjörn“ endalok á átökunum í landinu. Forsetinn sagðist ekki myndu slá af kröfum Úkraínumanna um sjálfræði, frelsi og endurheimt alls landsvæðis Úkraínu. 

Hann sagði Úkraínumenn deila sömu gildum og Bandaríkjamenn og að þeir væru að berjast fyrir sameiginlegum sigri gegn valdníðslu Rússa. „Við munum sigra og mig langar að við sigrum saman.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×