Selenskí heimsótti þingið og Hvíta húsið í gær, í sinni fyrstu opinberu heimsókn á erlendri grundu frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn.
Honum var vel tekið af þingmönnum bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins, þrátt fyrir að köll heyrist nú í síðarnefnda hópnum um endurskoðun fjárframlaga Bandaríkjanna til Úkraínu.
Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði á blaðamannafundi eftir tveggja tíma fund með Selenskí að það væri hins vegar engan bilbug að finna meðal bandamanna og að Bandaríkin myndu styðja Úkraínu eins lengi og þörf krefði.
Happening Now: President Biden hosts a joint press conference with President Volodymyr Zelenskyy of Ukraine. https://t.co/6WhOYPL79t
— The White House (@WhiteHouse) December 21, 2022
Biden sagði Selenskí hafa ítrekað mikilvægi samstöðu út árið 2023 og sagði ekki myndu skorta á hana af hálfu Bandaríkjamanna. Fyrr um daginn var tilkynnt um viðbótarframlag Bandaríkjanna upp á 1,8 milljarð dala, þar á meðal Patriot eldflaugavarnakerfi.
Á blaðamannafundinum var Selenskí spurður að því hvað hann teldi „sanngjörn“ endalok á átökunum í landinu. Forsetinn sagðist ekki myndu slá af kröfum Úkraínumanna um sjálfræði, frelsi og endurheimt alls landsvæðis Úkraínu.
Hann sagði Úkraínumenn deila sömu gildum og Bandaríkjamenn og að þeir væru að berjast fyrir sameiginlegum sigri gegn valdníðslu Rússa. „Við munum sigra og mig langar að við sigrum saman.“