Erlent

Grunar að ör­loft­steinn hafi valdið skemmdum á geim­ferju

Kjartan Kjartansson skrifar
Soyuz-geimferjan við Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu. Leki kom á kælikerfi hennar í dag.
Soyuz-geimferjan við Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu. Leki kom á kælikerfi hennar í dag. AP/Sergei Korsakov/Roscosmos

Rússneska geimstofnunin segir að mögulega hafi örloftsteinn valdið skemmdum á Soyuz-geimferju sem liggur við Alþjóðlegu geimstöðina á braut um jörðu. Geimferjan lekur kælivökva en hún á að vera nokkurs konar björgunarbátur fyrir áhöfnina.

Sérfræðingar á jörðu niðri urðu lekans varir rétt áður en rússnesku geimfararnir Sergei Prokopjev og Dmitrí Petelín ætluðu í fyrirhugaða geimgöngu. Þeir sáu vökva streyma frá Soyuz-geimferjunni í beinu streymi vefmyndavélar utan á geimstöðinni. Á sama tíma féll þrýstingur á mælum ferjunnar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Geimgöngunni var frestað vegna lekans. Bæði Roscosmos, rússneska geimstofnunin, og sú bandaríska, segja að uppákoman ógni ekki öryggi sex manna áhafnar geimstöðvarinnar. Lekinn gæti hins vegar haft áhrif á kælikerfi geimferjunnar og hitann á tækjabúnaði hennar.

Prokopjev, Petelín og bandaríski geimfarinn Frank Rubio flugu til geimstöðvarinnar með ferjunni í september. Hún liggur við geimstöðina og er ætluð til að koma geimförunum undan ef neyð kallar.

Ákvörðun um framhald núverandi leiðangurs um borð í geimstöðinni verður tekin þegar búið að er leggja mat á ástand geimferjunnar, að sögn Sergeis Krikalev, yfirmanns mannaðra geimferða hjá Roscosmos.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×