Erlent

Stærsta raf­­­mynta­­kaup­höll heims stöðvaði út­­tektir

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Binance, stærsta rafmyntakauphöll heims, segir óþarft að hafa áhyggjur.
Binance, stærsta rafmyntakauphöll heims, segir óþarft að hafa áhyggjur. Getty

Binance, stærsta rafmyntakauphöll í heimi, stöðvaði tímabundið úttektir af reikningum viðskiptavina í gær. Fjárfestar hafa samanlagt tekið ígildi þriggja milljarða bandaríkjadala út af reikningum sínum síðustu daga.

Eigendur rafmynta hafa verið áhyggjufullir eftir fall rafmyntafyrirtækisins FTX. Stofnandi fyrirtækisins, Sam Bankman-Fried, var handtekinn af bandarískum yfirvöldum í gær. Hann er sakaður um að hafa féflett viðskiptavini og fjárfesta rafmyntafyrirtækisins um árabil.

FTX var þriðja stærsta rafmyntakauphöll í heimi en hún var tekin til gjaldþrotameðferðar í síðasta mánuði. Félagið lenti í alvarlegri lausafjárþurrð þegar viðskiptavinir gerðu áhlaup og drógu út milljarða dollara innistæður eftir fréttir af því að nátengt fyrirtæki stæði á brauðfótum.

Viðskiptavinir Binance virðast hafa áhyggjur af lausafjárstöðu kauphallarinnar í kjölfar frétta af falli FTX og hafa því tekið út fjármuni í miklum mæli. Binance tísti skýrslu frá endurskoðendafyrirtækinu Mazars nýlega þar sem fram kom að eign fyrirtækisins í Bitcoin væri töluvert meiri en því sem nemur úttektum viðskiptavina. 

Changpeng Zhao, forstjóri Binance, gefur lítið fyrir áhyggjur viðskiptamanna og segir stórar úttektir ekki nýjar af nálinni: „Við höfum séð þetta áður. Stundum eru úttektir meira áberandi og á móti koma dagar þar sem innlagnir eru töluvert umfangsmeiri.“ Talsmaður Binance tekur í sama streng og segir að lausafjárstaðan sé mjög fín. Fyrirtækið hafi nægt fjármagn til að mæta úttektum viðskiptavina.

Ástæðan fyrir tímabundna úttektabanninu er sögð vera bakvinnsla. Færa þurfi rafmyntir af „köldum“ veskjum, sem ekki eru beintengd internetinu, yfir á önnur veski, sem tekið gæti nokkurn tíma. Það eigi sérstaklega við þegar margar stórar úttektir eru gerðar samtímis.

Zhao segir óþarft að hafa áhyggjur af fyrirtækinu: „Það, að þú lendir í slæmum viðskiptum við einhvern banka einhvern tímann þýðir það ekki að allir aðrir bankar séu það.“ Reuters og CNN greindu frá.


Tengdar fréttir

Stofnandi FTX hand­tekinn á Bahama­eyjum

Lögreglumenn á Bahamaeyjum handtóku Sam Bankman-Fried, stofnanda fallna rafmyntafyrirtækisins FTX, eftir að bandarískir saksóknarar höfðuðu sakamál gegn honum. Bankman-Fried er sagður grunaður um fjársvik og peningaþvætti.

Raf­mynta­grafarar í kröppum dansi

Lánveitendur hafa gengið að veðum í hundruð þúsundum véla sem eru notaðar til þess að grafa eftir rafmyntum í kjöfar falls rafmyntakauphallarinnar FTX í síðasta mánuði. Rafmyntagrafarar geta nú margir ekki staðið í skilum á lánum sínum þegar þrengir að þeim úr nokkrum áttum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×