Erlent

Bandaríkjamenn fordæma „óábyrgt“ hjal um kjarnorkuvopn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússlandsforseti sagði í gær að Rússar myndu ekki „fara um heiminn og munda kjarnorkuvopn eins og rakhníf“.
Rússlandsforseti sagði í gær að Rússar myndu ekki „fara um heiminn og munda kjarnorkuvopn eins og rakhníf“. AP/Sergei Karpukhin

Bandaríkjamenn hafa fordæmt Rússa fyrir óábyrgt tal um mögulega notkun kjarnorkuvopna eftir að Vladimir Pútín Rússlandsforseti gaf það í skyn í gær að áhættan á notkun vopnanna væri að aukast en að Rússar yrðu ekki fyrstir til að grípa til þeirra.

Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, var spurður um málið á blaðamannafundi og vildi ekki tjá sig beint um ummæli Pútín en sagði Bandaríkjastjórn þykja allt kæruleysislegt hjal um kjarnorkuvopn óábyrgt.

Price sagði að ríki heims, þeirra á meðal Kína, Indland, Bandaríkin og jafnvel Rússland, hefðu verið alveg skýr um það frá lokum kalda stríðsins að kjarnorkustyrjöld mætti aldrei brjótast út þar sem þar yrðu engir sigurvegarar.

Pútín sagði í gær að hættan á kjarnorkustríði hefði magnast en að Rússar hefðu ekki misst vitið og myndu ekki verða fyrstir til að grípa til kjarnorkuvopna. Kaldhæðnislega, í ljósi hótana síðustu misserin, sagði hann Rússa ekki myndu nota kjarnorkuvopnabirgðir sínar til að hóta einum eða neinum.

Þá sagði Rússlandsforseti stríðsreksturinn í Úkraínu mögulega munu verða „langt ferli“.

Bandaríkjamenn og fleiri hafa haft uppi áhyggjur af því að Rússar muni mögulega grípa til kjarnorkuvopna ef þeir sjá það í hendi sér að tapa á vígvellinum. Hins vegar hafa menn einnig bent á að það skilaði þeim í raun engu, nema fordæmingu og útskúfun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×