Íslenski boltinn

Fjölskyldan flutt frá Eyjum og Andri Rúnar líklegast ekki með ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason á ferðinni með ÍBV í Bestu deildinni í sumar.
Andri Rúnar Bjarnason á ferðinni með ÍBV í Bestu deildinni í sumar. Vísir/Diego

Framherjinn Andri Rúnar Bjarnason hefur líklega spilað sinn síðasta leik með Eyjamönnum en fjölskylda hans er flutt á höfuðborgarsvæðið.

Andri Rúnar á enn eftir eitt ár af samningi sínum en í viðtali við Fótbolta.net þá segist Andri Rúnar ætla að láta fjölskylduna ganga fyrir að þessu sinni en konan hans er að fara eignast þeirra annað barn.

„Við erum að klára að skoða hvernig við ætlum að klára þetta, ÍBV og ég," sagði Andri Rúnar Bjarnason í samtali við fótbolta.net.

Andri Rúnar glímdi við meiðsli í byrjun tímabils og tók nokkurn tíma að koma sér af stað. Hann endaði á því að skora 10 mörk í 25 leikjum.

„Persónulega var það erfitt fyrir mig að byrja seint út af meiðslum og ná upp alvöru formi. Ég get verið sáttur við að skila tíu mörkum á þannig tímabili. Heilt yfir var þetta gott sumar þrátt fyrir erfiða byrjun," sagði Andri Rúnar í fyrrnefndu viðtali.

Andri segist vera að vinna í líkamlega þættinum hjá sér og að hann ætli að koma sér í gott líkamlegt stand fyrir næsta sumar.

Andri Rúnar jafnaði markametið þegar hann skoraði 19 mörk í 22 leikjum með Grindavík sumarið 2917 og fór í framhaldinu í atvinnumennsku þar sem hann lék með Helsingborg í Svíþjóð, Kaiserslautern í Þýskalandi og Esbjerg í Danmörku áður en hann kom aftur fyrir síðasta tímabil.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.