Erlent

„Það er margt sem ég elska við Hitler“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er vitað að Ye á við geðræn vandamál að stríða, sérfræðingar segja það hins vegar ekki afsaka orð hans og gjörðir.
Það er vitað að Ye á við geðræn vandamál að stríða, sérfræðingar segja það hins vegar ekki afsaka orð hans og gjörðir. Vísir/epa

Tónlistarmaðurinn Ye, áður Kanye West, hefur aftur verið bannaður á Twitter eftir að hafa deilt mynd af lógói þar sem Davíðsstjörnunni og hakakrossinum hefur verið blandað saman.

Ye birti merkið nokkrum klukkustundum eftir að hafa mært Adolf Hitler og nasista í viðtali.

Tístinu var fljótlega eytt og þá birti Ye ófagra mynd af Elon Musk, eiganda og stjórnanda Twitter, og sagði:

„Minnumst þessa ávallt sem síðasta tístsins míns“. 

„Þetta er allt í lagi,“ svaraði Musk. „Þetta er það ekki,“ skrifaði hann á tístið með merkinu.

Ye brást þá við með því að deila efni á Truth Social, samfélagsmiðli Donald Trump, meðal annars skilaboðum frá Musk þar sem Musk reynir að tala um fyrir Ye varðandi lógóið.

„Sorrý en þú gengur of langt. Þetta er ekki ást,“ skrifaði Musk. „Hver gerði þig að dómara,“ svaraði Ye og deildi svo skjáskoti af skilaboðum um að hann hefði verið bannaður í tólf tíma fyrir að deila myndinni.

„Ég gerði mitt besta,“ tísti þá Musk og sagði að aðgangur Ye yrði gerður óvirkur.

Merkið umdeilda sem Ye birti á Twitter.

Fyrr í gær birtist Ye, með andlitsgrímu, í þættinum InfoWars ásamt öfgahægrimanninum Nick Fuentes. Þar sagðist hann sjá góðar hliðar á Hitler. „Allar manneskjur hafa eitthvað mikilsvert fram að færa, ekki síst Hitler,“ sagði hann.

„Nasistarnir voru þrjótar,“ sagði þá þáttastjórnandinn Alex Jones.

„En þeir gerðu líka góða hluti. Við verðum að hætta að dissa nasistana endalaust,“ svaraði tónlistarmaðurinn. Hann bætti svo um betur og sagði: „Ég elska gyðinga. En ég elska líka nasista.“

„Hitler var ekki góður gæi,“ sagði Jones síðar í viðtalinu. „Það er margt sem ég elska við Hitler. Margt,“ svaraði Ye.

Þess má geta að merkið sem Ye deildi hefur verið notað af fylgjendum trúarbragða sem trúa því að jörðin hafi verið sköpuð af geimverum. Þeir tóku merkið upp til að „endurheimta hakakrossinn frá nasistunum“ og segja hann standa fyrir „eilífð í tíma“, á meðan Davíðsstjarnan standi fyrir „eilífð í rúmi“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×