Innlent

Kláfur sé fyrst og fremst að­­gengis­­mál

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Einar segir að einungis sé verið að skoða málin. Engin ákvörðun hafi verið tekin.
Einar segir að einungis sé verið að skoða málin. Engin ákvörðun hafi verið tekin. Arnar Halldórsson

Borgarráð hefur samþykkt að skoða að setja upp Kláf í Esjuhlíðum. Formaður borgarráðs segir málið fyrst og fremst aðgengismál en að í hugmyndinni felist einnig tækifæri fyrir ferðaþjónustuna.

„Þetta er gömul hugmynd. Hún kom fyrst til borgarinnar, erindi um að fá að setja upp kláf, frá áhugasömum aðilum árið 2013 eða 2014. Það mál náði ekki fram að ganga á þessum tíma. Þessir aðilar hafa verið að vinna að þessari hugmynd áfram, stunda veðurfarsrannsóknir og annað,“ segir Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs.

Og nú hefur umhverfis- og skipulagssviði verið falið að taka málið til meðferðar. Einar segir þörf á umhverfismati og samráði við íbúa og hagaðila. Í samþykkt borgarráðs frá því í morgun felist engin yfirlýsing af hálfu borgarinnar um að af verkefninu verði. Einungis sé verið að skoða málin.

„En það er alveg ljóst að mínu mati að það eru mikil tækifæri sem gætu falist í þessu fyrir ferðaþjónustu en ekki síst fyrir fatlaða og eldri borgara. Það eiga allir að geta nýtt Esjuna. Þar ofan á henni er mikið og fallegt útivistarsvæði þannig að það eru ýmsir kostir en líka einhverjir gallar. Nú ætlum við bara að rýna málið og vinna það vel.“

Óljóst er hvernig kláfurinn gæti komið til með að líta út á Esjunni en hægt er að sjá fyrir sér eitthvað í líkingu við grafíkina sem sést í sjónvarpsfréttinni. Níutíu og níu blaðsíðna bunki fylgdi tillögunni sem finna má í fundargerð borgarráðs.

Ef af hugmyndinni verður fer verkið í útboðsferli. Einar segir að engin fjárhagsleg skuldbinding verði af hálfu borgarinnar.

„Það eru þeir aðilar sem kæmu að rekstri farþegaferjunnar þarna upp sem myndu axla alla fjárhagslega áhættu af þessu verkefni. Borgin kemur ekki neitt að þessu fjárhagslega.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×