Fótbolti

Sveindís og stöllur styrktu stöðu sína á toppnum með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir lék allan leikinn í liði Wolfsburg í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir lék allan leikinn í liði Wolfsburg í dag. Getty/Cathrin Mueller

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg unnu öruggan sigur er liðið heimsótti Köln í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lokatölur 0-4 og Wolfsburg er nú með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar.

Það tók smá tíma fyrir gestina að brjóta ísinn, en eftir að fyrsta markið leit dagsins ljós var ekkert sem gat stöðvað liðið.

Marina Hegering kom Wolfsburg yfir á 30. mínútu áður en Alexandra Popp tvöfaldaði forystu liðsins þremur mínútum síðar. Hegering var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan því 0-3 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Alexandra Popp bætti svo öðru marki sínu og fjórða marki Wolfsburg við þegar rúmar tuttugu mínútur lifðu leiks og þar við sat. Lokatölur 0-4 og Wolfsburg er enn með fullt hús stiga eftir átta leiki, fjórum stigum meira en Frankfurt sem situr í öðru sæti. Köln situr hins vegar í níunda sæti með níu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×