Enski boltinn

Ronaldo sagðist vera veikur eftir að hann frétti að hann yrði ekki í byrjunarliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leiknum gegn Aston Villa sem var líklega síðasti leikur hans fyrir Manchester United.
Cristiano Ronaldo í leiknum gegn Aston Villa sem var líklega síðasti leikur hans fyrir Manchester United. getty/Stu Forster

Eftir að Cristiano Ronaldo fékk að vita að hann yrði ekki í byrjunarliði Manchester United gegn Fulham sagðist hann vera veikur.

United vann dramatískan útisigur á Fulham, 1-2, í ensku úrvalsdeildinni í gær. Sigurinn féll þó í skuggann af viðtali Piers Morgan við Ronaldo þar sem hann fór ekki fögrum orðum um United, sakaði Erik ten Hag, knattspyrnustjóra liðsins, um vanvirðingu, sagði Wayne Rooney vera ófríðan og svo framvegis.

Kaveh Solhekol, fréttamaður Sky Sports, segir að Ronaldo hafi verið tjáð á fimmtudaginn að hann myndi ekki byrja inn á gegn Fulham en yrði í leikmannahópi United. Þá hafi Portúgalinn tjáð félaginu að hann væri veikur. Solhekol segir að enginn hjá United hafi vanvirt Ronaldo, öfugt við það sem hann heldur fram, þótt hann hafi beðið um að fara frá félaginu og neitað að koma inn á sem varamaður í sigrinum á Tottenham.

Að sögn Solhekols fékk United veður af viðtalinu þegar liðið var á heimleið til Manchester eftir sigurinn á Fulham. Ten Hag og leikmenn United ku vera afar ósáttir við tímasetningu viðtalsins og skilja ekki hvað honum gekk til. Þeir eru afar vonsviknir með að hann hafi vanvirt félagið, stjórann og leikmennina með þessum hætti.

Ronaldo hefur leikið sextán leiki fyrir United á þessu tímabili en erfitt er að sjá að þeir verði fleiri. Portúgalinn var markahæsti leikmaður United á síðasta tímabili en hefur aðeins skorað þrjú mörk í vetur.

United er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 26 stig eftir fjórtán leiki. Liðið er þremur stigum frá 4. sætinu en á leik til góða á Tottenham sem er í því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×