Enski boltinn

Reiðir og sárir út í Ronaldo

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United.
Cristiano Ronaldo gæti hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester United. Getty/Matthew Ashton

Ráðamenn og leikmenn Manchester United eru reiðir og telja sig illa svikna vegna viðtalsins sem Cristiano Ronaldo fór í. Brot úr viðtalinu fóru að birtast skömmu eftir leik við Fulham í gær sem Ronaldo sagðist of veikur til að ferðast í.

Samkvæmt Sky Sports vissu vinnuveitendur Ronaldos hjá United ekki af viðtalinu fyrr en að liðið var að búa sig undir flug heim til Manchester eftir 2-1 sigurinn gegn Fulham í Lundúnum í gær.

Klippur úr viðtalinu fóru þá að birtast en þar segist Ronaldo ekki bera virðingu fyrir knattspyrnustjóranum Erik ten Hag, að forráðamenn United hafi reynt að neyða hann í burtu frá félaginu og að umgjörðin hjá félaginu hafi ekkert þróast frá því að hann var síðast hjá félaginu fyrir rúmum áratug.

Daily Mail segir að liðsfélagar Ronaldos séu „rosalega vonsviknir“ út í hinn 37 ára gamla Portúgala og að þeir telji hann hafa sýnt félaginu og stjóranum algjöra vanvirðingu.

Bæði leikmenn og stjóri séu sárir en líka undrandi vegna þeirra orða sem Ronaldo hafi látið falla og vegna tímasetningar viðtalsins.

Samkvæmt Sky Sports fékk Ronaldo að vita það síðastliðinn fimmtudag að hann yrði ekki i byrjunarliði United gegn Fulham, í síðasta leiknum fyrir HM-hléið, en að hann yrði í leikmannahópnum.

Ronaldo mun svo hafa tjáð félaginu að hann væri veikur og gæti ekki ferðast með til Lundúna. Þess vegna hafi forráðamenn United verið enn gramari eftir að brotin úr viðtalinu fóru að birtast.

Ronaldo fer núna á HM í Katar með Portúgal og næsti leikur United verður ekki fyrr en skömmu fyrir jól, gegn Burnley í deildabikarnum. Liðið spilar svo tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir áramót, áður en félagaskiptaglugginn opnast í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×