Fótbolti

María ætlar að sniðganga HM

Sindri Sverrisson skrifar
María Þórisdóttir í leik með norska landsliðinu sem mætir Englandi í vináttulandsleik á morgun.
María Þórisdóttir í leik með norska landsliðinu sem mætir Englandi í vináttulandsleik á morgun. Getty/Marcio Machado

María Þórisdóttir, landsliðskona Noregs í fótbolta, er í hópi þeirra sem ætla ekkert að fylgjast með heimsmeistaramóti karla í Katar sem hefst á sunnudaginn. Staðsetning mótsins ræður því.

„Nei,“ segir María við spurningu NTB um hvort að hún ætli að fylgjast með HM. „Það hefur mikið að gera með það hvar mótið er,“ bætir hún við.

Í knattspyrnuheiminum hafa Norðmenn, með formanninn Lise Klaveness, í broddi fylkingar, gengið hvað vasklegast fram við að gagnrýna að HM skuli fara fram í Katar, vegna þeirra mannréttindabrota sem viðgengist hafa í landinu. Noregur er ekki á meðal þátttökuþjóða á mótinu.

Ein helsta gagnrýnin hefur snúið að aðbúnaði verkamanna í landinu en The Guardian sagði frá því í fyrra að þá hefðu yfir 6.500 verkamenn látist í landinu frá því að FIFA ákvað að Katar yrði gestgjafi mótsins.

Þá er samkynhneigð bönnuð í Katar og þrátt fyrir fögur fyrirheit FIFA um að öll yrðu velkomin á HM þá kom í ljós í svörum frá HM-hótelum í Katar, í rannsókn norrænu ríkismiðlanna SVT, NRK og DR, að samkynhneigðir væru ekki velkomnir.

Á meðan að pabbi hennar, Þórir Hergeirsson, stendur í ströngu með norska handboltalandsliðinu á EM er María ásamt norska fótboltalandsliðinu á Spáni þar sem liðið mætir Englandi í vináttulandsleik á morgun.

Guro Reiten, liðsfélagi Maríu, tekur í sama streng og Manchester United-konan.

„Þetta er ekki mót sem kallar fram tilhlökkun. Það finnur maður á öllu,“ segir Reiten.

„Það er mjög sorglegt en það segir meira um allt sem hefur gerst og það að mótið skuli haldið í þessu landi,“ bætir hún við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×